150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[12:11]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að auðvitað eru vítin til að varast þau. Við skulum vona að við lærum í stjórnsýslunni en ég vil bara minna á það sem hefur verið lenskan, a.m.k. í samfélaginu á höfuðborgarsvæðinu, að frekar en að hafa samræmdan grunn og samræmdar upplýsingar hafa byggingarfulltrúar og í einhverjum tilfellum aðilar á vegum iðnaðarins ekið um byggingarsvæði í Reykjavík og handtalið hvað er í gangi. Það eru skástu upplýsingarnar sem við höfum í dag um hvað er að gerast á þessum markaði. Að mínu viti er það algjörlega óásættanlegt fyrirkomulag og engin leið fyrir sveitarfélögin, ríkisvaldið eða aðra framkvæmdaraðila að byggja ákvarðanatöku og áætlunargerð á einhverju slíku. Það er algjörlega útilokað.

Þingmanninum verður tíðrætt um að peningar hafi farið í að gera þessa byggingagátt. Já, svo sannarlega hafa einhverjir peningar farið í það og munu vafalítið gera, en þeir fjármunir sem liggja í því að ekki sé nein áætlunargerð sem byggi á rauntölum, ekki neinar upplýsingar sem menn geti byggt á áður en þeir fara af stað með framkvæmdir, fela í sér enn meiri fórnarkostnað. Það er enn þá erfiðara fyrir alla og við viljum ekki sjá einhverja holskeflu af ónauðsynlegum framkvæmdum. Við höfum áhuga á hvorugum öfgunum, að við sitjum uppi með að það vanti helling af íbúðum annars vegar, vegna þess að menn hafi ekki haft vitneskju um að þær vantaði, eða hins vegar að við sitjum uppi með stóran lager af íbúðum sem framkvæmdaraðilar hafa farið út í (Forseti hringir.) með þeim afleiðingum sem við þekkjum því miður allt of vel í þessu samfélagi.