150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[12:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Ég verð því miður að taka undir þær raddir sem hér hafa heyrst en biðjast jafnframt afsökunar á því að hafa ekki fylgst nóg með þessu máli. Hraðinn var mikill og þetta er viðamikið verkefni.

Það gleymist að taka inn í meðferð nefndarinnar það sem er kannski merkilegast við frumvarpið í heild sinni. Á bls. 7 í frumvarpinu eru talin upp verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og í 4. lið er að annast aðgengismál. Eitt verkefni stofnunarinnar er að annast aðgengismál, t.d. fatlaðra. Ég vil benda á umsögn Sjálfsbjargar frá 16. desember en þar segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi í 319. máli segir um verkefni nýrrar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar:

4. að annast aðgengismál.

Í frumvarpinu er þetta ekkert útskýrt frekar.

Sjálfsbjörg, MND-félagið og SEM-samtökin hafa lengi óskað eftir að komið verði á fót eftirliti með aðgengismálum fatlaðs fólks.

Við því hefur ekki verið orðið.

Því fæst ekki annað séð en að umrætt frumvarp sé illa unnið hvað verkefni nýrrar stofnunar varðar.

Það er því afar nauðsynlegt að velferðarnefnd taki á þessu verkefni sem aðgengismálin eru og það verði a.m.k. útskýrt í meðförum þessa frumvarps. Einnig er nauðsynlegt að tekið verði fastar á því að ný mannvirki séu ekki reist og þau tekin í notkun án þess að fullt aðgengi sé fyrir alla!“

Í umræddu bréfi er líka bent á að verið sé að byggja nýja þjónustukjarna eins og t.d. böð á Laugarvatni, í Borgarfirði og á Húsavík þar sem aðgengi er ábótavant. Þetta eru nýjar framkvæmdir. Ég held að það hafi örugglega verið á Húsavík sem ég sá hvernig var gengið frá aðgengi fyrir fatlaða. Það var rosalega flott gengið frá, allt virkaði eins og frábær hönnun og aðstaða og maður gat ekki ímyndað sér annað en að þetta væri allt samkvæmt stöðlum og rétt gert. En viti menn, þegar látið var á það reyna var þetta bara allt rangt gert. Hæðir voru ekki réttar og ekki breiddir heldur. Þetta var hannað út frá sjónarmiði fegurðar en ekki með notkun í huga. Það er ömurlegt til þess að hugsa að mannvirki sé tekið út og samþykkt þannig að það líti út eins og það sé aðgengi fyrir fatlaða en er það svo ekki. Það er eingöngu þannig að af því að þetta lítur svona fallega út hljóti það að virka. Lágmarkskrafa þegar menn framkvæma svona hluti á að vera að þeir virki. Þetta kemur skýrt fram í umsögn Sjálfsbjargar þar sem er vitnað í svar byggingarfulltrúa Norðurþings, með leyfi forseta:

„„Hraði framkvæmda við endurbætur ræðst að nokkru af þeim tekjum sem koma inn hjá fyrirtækinu. Rétt er að hafa í huga að sjóböðin eru hagnaðardrifin einkaframkvæmd sem ekki eru í eigu opinberra aðila. Starfsleyfi sjóbaðanna er veitt á grundvelli reglugerðar um baðstaði í náttúrunni nr. 460/2015.“

Þess má geta að sami byggingarfulltrúi skrifaði upp á teikningar sjóbaðanna og veitti þeim byggingarleyfi …

Að mati Sjálfsbjargar er þarna verið að snúa hlutunum á haus og fresta því að allir, þar með talið hreyfihamlaðir, geti notið sjóbaðanna eins og hver annar.“

Þessar ábendingar eru grafalvarlegar og ber að taka til skoðunar. Ég mun fylgja þeim eftir hvernig sem þessu máli reiðir af. Ég er eiginlega enn meira á þeirri skoðun að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eigi að vera séreftirlitsaðili, að það ætti að byggja mjög vel undir stofnunina og sjá líka til þess að allar þær tekjur sem eru innheimtar í öryggis- og eftirlitsmálum skili sér til viðkomandi stofnunar. Ég get ekki skilið að það sé ekki tryggt þegar við tryggjum nefndum eins og mannanafnanefnd og fjölmiðlanefnd peninga sem hlaupa á hundruðum milljóna þar sem engin mannslíf eru undir en hér eru þau í húfi. Hérna eru brunamálin og þar af leiðandi eigum við að tryggja að eftirlit sé nægilegt. Það segir manni að eitthvað sé að ef eftirlitið fer þannig fram, eins og kom fram hjá hv. þingmanni áðan, að það sé keyrt um bæinn og byggingar taldar. Það er skelfilegt. Maður spyr þá: Hvernig er eftirlitið í dag? Þarna verðum við að fá svar frá viðkomandi stofnun, Mannvirkjastofnun, um hvernig eftirliti er háttað.

Ég hef líka bent á brunavarnir sem ég hef miklar áhyggjur af. Við virðumst ætla að feta í fótspor þeirra þjóða í kringum okkur sem huga ekki að brunavörnum, t.d. vegna hættu á gróðureldum sem hafa tröllriðið öllu erlendis. Við virðumst ekki ætla að læra eitt eða neitt. Við ypptum bara öxlum og hugsum: Það kemur ekkert fyrir okkur, við erum svo norðarlega og það er svo blautt hérna að það getur ekki kviknað í.

Ég er viss um að á einhverjum tímapunkti hafa Svíar hugsað það sama en þeir eru örugglega löngu hættir að hugsa þannig. Okkur ber skylda til að læra af þessu og efla þennan þátt og líka Brunamálaskólann, eins og ég og aðrir höfum bent á. Þarna erum við að tala um stofnanir sem við viljum efla þar sem líf eru í húfi. Við verðum að átta okkur á því að það er alveg gjörólíkt að hafa eftirlitsstofnanir sem eru að reyna að tryggja að fólk verði ekki fyrir skaða. Það gildir allt annað um þær en venjulegar eftirlitsstofnanir sem tékka á því hvað fólk heitir, vill heita eða má ekki heita.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra en ég tek undir að við hefðum átt að gefa okkur meiri tíma. Ég er alveg búinn að sjá að svo sannarlega hefði ekki veitt af. Við þurfum líka, eins og ég segi og ég mun fylgja því eftir, að fá svör frá Mannvirkjastofnun um það hvernig í ósköpum stendur á því að ekki sé fylgst með þessum málum. Ég óttast að svarið verði, en það kemur bara í ljós, að stofnunin geti ekki fylgst með vegna þess að hún hafi ekki næga fjármuni til þess. Það er grafalvarlegt mál ef hún getur ekki fylgst með þessum málum og séð til þess að aðgengi fatlaðra, brunamál og annað sé í því ástandi að það virki fullkomlega. Ég tel að það sé það sem við eigum að tryggja og sjá til að sé gert í svona frumvarpi.