150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[12:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt, umsögnin barst seint. Ég vona heitt og innilega að hjá þessu ráðuneyti verði þessi mál tekin fastari tökum. Ef það ætti að gerast einhvers staðar væri það þar. Það sem ég óttast hins vegar er að ekki verði tryggðir meiri peningar í eftirlitið. Ég veit ekki hvernig þessu eftirliti er háttað, maður þarf eiginlega að fara að spyrja að því, t.d. með sjóböðin fyrir norðan. Hvernig er hægt að búa til frábærlega flotta hönnun fyrir fatlaða einstaklinga sem er rosalega flott en virkar ekki? Hvar er eftirlitsaðilinn? Ég geri mér grein fyrir því að hann er líklega ekki fatlaður og að hann gerir sér enga grein fyrir því hvernig er að vera fatlaður. Í þessu tilfelli gerir sennilega enginn sér grein fyrir því nema vera fatlaður, viðkomandi þyrfti helst að vera í hjólastól til að taka þetta út svo það væri örugglega rétt.

Við þurfum að breyta ákveðnum hlutum og það er óskandi að þegar þessi mál verða komin undir félags- og barnamálaráðherra komist þau í lag. Ég mun skora á hann að koma þeim í lag. Ég vona líka heitt og innilega að séð verði til þess að fjármunir skili sér. Ég man ekki hvað þeir sögðu en mig minnir að tæpur helmingurinn af því sem er innheimt í öryggis- og eftirlitsgjöld skili sér. Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst sjálfsagt að að lágmarki skili sér nákvæmlega það sem er innheimt í þetta og þá get ég ímyndað mér að hægt væri að tvöfalda eftirlit stofnunarinnar miðað við það sem er gert í dag.