150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns um aðgengismál. Það er ekki bara í eftirlitsþættinum sem menn þurfa að taka sig á heldur allir aðilar og allt ferlið, frá hugmynd að opnun. Þetta á að vera tryggt á öllum stigum, m.a. í hönnun. Svo margir aðilar koma að sem ættu að vera til þess bærir að fylgjast vel með þessum hlutum þannig að það gæti ekki gerst að svona flott og stór bygging hentaði ekki öllum aðstæðum fólks.

Ég treysti því að ráðuneytið fylgi málinu eftir. Ég tek undir þessa umsögn og áhyggjur í henni þótt hún sé seint fram komin. Við erum búin að nefna þetta hér og vonandi skilar það sér til þeirra stofnana sem er verið að setja á fót núna og vonandi verður fjármagnið sem sett verður í stofnunina og sú hagræðing sem verður af sameiningunni nýtt til allra góðra verka og sérstaklega að menn sinni eftirlitsþáttum sem varða brunavarnir, aðgengismál fatlaðra og fleiri þætti sem skipta svo miklu máli.