150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[12:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek að hluta til undir þessar áhyggjur, sem við reifuðum í nefndaráliti okkar. En við beinum því líka til ráðherra að hann fylgist mjög grannt með því. Svo er það líka eins og sagt er hér að sveitarfélögin og ýmsir aðrir, eins og Brynja og Þroskahjálp, sinna þessu hlutverki hvað varðar íbúðir fyrir fatlaða. Ég þekki það alla vega að víðs vegar úti um land eru þessi félög nær einvörðungu að sinna því hlutverki og er það mjög mikilvægt og ég er ekki að draga úr því. Þetta er alltaf spurning um hvernig eigi að horfa til þess. Þetta frumvarp á ekki að taka neitt fyrir það að þau komist að eins og hefur verið og við beinum því sérstaklega til ráðherra að fylgjast með þeim þætti og treystum því að það verði gert.