150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[12:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og endurtek að ég var ánægð með vinnu okkar í þessu máli. Ég tek þó undir að það kom nokkuð seint inn. 11 umsagnir bárust, það var gefinn þriggja vikna umsagnarfrestur og bárust umsagnir innan þess tíma. Vissulega bárust umsagnir eftir þann tíma en í umsögn Reykjavíkurborgar var svo sem ekkert nýtt, þær áhyggjur höfðu komið fram áður. Samband íslenskra sveitarfélaga sem Reykjavíkurborg er undir lýsti ánægju sinni með frumvarpið. Ég tel að okkur hafi tekist að vinna vel að málinu á þeim tíma sem við höfðum. Ég tek alls ekki undir áhyggjur af að þetta hafi verið illa unnið. Þriggja vikna umsóknarfrestur var gefinn og mér finnst svolítið sérstakt að Reykjavíkurborg fylgist þá ekki betur með en svo að senda umsögn svona seint. Þar komu ekki fram einhverjar sérstakar eða nýjar áhyggjur sem við vorum ekki þegar búin að fá inn til okkar. Ég held að við séum með gott mál í höndunum og stend alveg við það.