150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[12:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kom umsögn og við kölluðum Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir. Sambandið á að fara með hagsmuni allra sveitarfélaga í landinu, þar á meðal Reykjavíkurborgar. Ég held að því hafi verið svarað og eins og ég sagði voru þær áhyggjur þegar fram komnar.

Félagsbústaðir óskuðu eftir að koma fyrir nefndina en ekki vannst tími til þess. Nú erum við að vinna þetta mál og vissulega á knöppum tíma en það fór í þriggja vikna umsagnarferli. Það eru ný vinnubrögð, samráðsgátt sem er þarna í ferlinu. Ég held að við séum að vinna þetta í nokkuð góðu samráði. Ég hef ekki tíma til að reifa það aftur en meiri hlutinn taldi sem sagt tiltekin sjónarmið ekki gefa tilefni til breytinga á c-lið 11. gr. en beinir því til félags- og barnamálaráðherra að fylgjast sérstaklega með áhyggjum af þessu máli sem voru vissulega reifaðar frá Félagsbústöðum og fleirum. (Forseti hringir.) Við beinum því til ráðherra og vonumst til að hann hlýði því bara.