150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[12:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Viðraðar hafa verið töluverðar áhyggjur af þessu máli í umsögnum um það og það sem ég vil í fyrra andsvari spyrja út í er forgangsröðun. Það er verið að setja einstaklinga á vinnumarkaði í forgang umfram þá aðila sem sækjast eftir félagslegu húsnæði og m.a. í umsögnum Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða kemur fram ágætlega góð greining á þörfinni. Þar er veruleg uppsöfnuð þörf á félagslegu húsnæði og um 1.300 manns tilgreindir sem eru á biðlistum eftir húsnæði.

Ég hef ítrekað kallað eftir umræðu um almennu íbúðirnar og þann hluta sem snýr að vinnumarkaðnum, að fram fari einhvers konar þarfagreining á því hversu margar íbúðir þarf en ekki bara hversu margar íbúðir er verið að biðja um fjármagn eða heimild til að byggja. Ég hef ekki enn fengið svör við þessum spurningum mínum og ég spyr því hv. þingmann og framsögumann meiri hlutans hvort ekki hefði verið ráð að taka aðeins meiri tíma í ljósi þeirra alvarlegu athugasemda sem settar eru fram af hálfu Reykjavíkurborgar, stærsta aðilans í félagslega húsnæðiskerfinu okkar, um einmitt þá breyttu forgangsröðun sem í frumvarpinu felst, að þá lægi í það minnsta til grundvallar einhvers konar mat á þörf fyrir almennar íbúðir fyrir einstaklinga sem eru á vinnumarkaði, sem virðist ekki liggja fyrir, sér í lagi þegar horft er til þeirra 25% tekjulægstu. Þau viðmið virðast ekki duga til. Það virðist vera ónóg eftirspurn eftir almennum íbúðum sem er kannski helsta ástæða þess að verið er að hækka tekjuviðmiðin en um leið (Forseti hringir.) setja þá tekjulægstu aftar í forgangsröðina.