150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[12:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég kem enn og aftur að því að ég er að reyna að lyfta velferðarnefnd upp en minni hlutinn er alltaf að reyna að rífa niður þá vinnu sem við höfum þó lagt fram í þeim málum sem hafa verið lögð fram hérna. Ég tel að þetta hafi verið ágætlega unnið. Ég ætla líka að minna á að það er ekki nóg með að við höfum farið í eðlilegt samráðsferli, við höfum farið í samráð í samráðsgátt, en þetta eru þættir sem var samið um í lífskjarasamningnum. Hversu mikið ættum við að sveigja frá því? Þessir þættir voru þar inni.

Áhyggjur Félagsbústaða eru að þrýstingurinn muni aukast. Ég held að akkúrat með þessu kerfi sem er verið að byggja hér undir minnki þrýstingurinn á félagslega kerfið og ætti að koma til móts við það. Ég endurtek að við erum hérna að vinna að máli sem er hluti af lífskjarasamningnum og þó að velferðarnefnd sé í öllum básum vel skipuð held ég að það sé ekki okkar að breyta því.