150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[12:59]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta hv. velferðarnefndar en undir þetta nefndarálit rita sú sem hér stendur, formaður velferðarnefndar, og hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Halldóra Mogensen og Guðmundur Ingi Kristinsson. Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson áheyrnarfulltrúi er einnig samþykk áliti þessu. Um er að ræða nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir með síðari breytingum. Kemur þar fram að minni hluti gagnrýnir harðlega þau vinnubrögð félags- og barnamálaráðherra sem sjást glögglega við framlagningu málsins.

Málið er lagt fram í tengslum við svokallaða yfirlýsingu stjórnvalda um stuðning við lífskjarasamninga sem undirrituð var í apríl 2019. Frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 14. maí 2019 og höfðu umsagnaraðilar í jafn viðamiklu máli og hér um ræðir einungis eina viku til að bregðast við og urðu að skila inn umsögn fyrir 21. maí 2019. Alls bárust níu umsagnir og bera þær þess merki að umsagnaraðilar hafi talið vikufrest allt of skamman til að greina innihald frumvarpsins til hlítar. Kom það beinlínis fram í umsögnunum. Það verður að teljast ámælisvert af stjórnvöldum þegar um er að ræða eins viðamikið mál og umfangsmiklar breytingar á lögum um almennar íbúðir að standa svo að málum.

Gagnrýnir minni hlutinn einnig harkalega hversu seint þetta mál kemur svo fram á Alþingi Íslendinga. Eins og áður sagði var málið í samráðsgátt stjórnvalda frá 14. maí til 21. maí en kemur hingað til Alþingis um miðjan nóvember sl. eða um hálfu ári eftir að umsagnarferli lauk í samráðsgátt. Nefndinni gafst því ekki nægur tími til þess að vinna lagfæringar á frumvarpinu, m.a. þar sem ekki gafst tími til þess að kalla alla umsagnaraðila á fund nefndarinnar sem gerðu alvarlegar athugasemdir við frumvarpið. Vegna þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað hér er rétt að taka það fram, svo því sé haldið til haga og það fært til bókar, að meiri hluti nefndarinnar óskaði eftir því að málið yrði tekið úr nefnd án þess að fulltrúar Reykjavíkurborgar og fulltrúar Félagsbústaða, stærsta eiganda félagslegs húsnæðis á Íslandi, kæmu fyrir nefndina.

Frumvarpið hefur ekki eingöngu áhrif á stóran hóp fólks á vinnumarkaði eins og markmiðin gefa til kynna, hópinn sem heyrir undir svokallaðan lífskjarasamning, heldur alla íbúa landsins. Frumvarpið er hluti af átaki stjórnvalda til að bæta stöðu húsnæðismála sem er til komin vegna sinnuleysis þeirra í húsnæðismálum sem leitt hefur til húsnæðisskorts. Þeim skorti hefur fylgt síhækkandi húsnæðisverð, hvort tveggja á fasteigna- og leigumarkaði. Hækkandi leiguverð hefur komið harðast niður á þeim hópi sem býr við lökustu kjörin; öryrkjum, eldri borgurum, atvinnulausum og námsmönnum, en einnig þeim hópi sem frumvarpinu er ætlað að mæta, þ.e. tekjulágu fólki á vinnumarkaði. Það að stjórnvöld grípi til þess átaks sem nú á sér stað án þess að fram fari þarfagreining er að mati minni hluta nefndarinnar mjög ámælisvert þar sem með öllu er horft fram hjá hvar á landinu þörfin er mest og hver staðan er á almennum fasteignamarkaði. Hinn almenni fasteignaeigandi hefur einnig þörf fyrir að vandað sé til verka við lagasetningu á sviði húsnæðismála. Ævisparnaður fólks liggur oft og tíðum í fasteignum landsmanna og hefur fjölgun eigna umfram þörf áhrif á þann sparnað sem liggur í fasteignum landsmanna. Telur minni hlutinn því ámælisvert að farið sé í átak sem þetta án þess að fram fari fullnægjandi þarfagreining. Þá er rétt að taka fram að það var heldur ekki farið í þarfagreiningu með tilliti til ólíkra hópa.

Minni hlutinn bendir á að lífskjarasamningurinn var einungis gerður við hinar vinnandi stéttir. Meiri hlutinn tók ekki tillit til þeirra athugasemda sem fram komu í umsögn Félagsbústaða hf. sem er eigandi langstærsta hluta félagslegra íbúða á landinu, ekki tillit til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem þjónustar flesta íbúa landsins né heldur tillit til umsagna Öryrkjabandalagsins og Brynju – hússjóðs Öryrkjabandalagsins. Í umsögnum þeirra var bent á að með frumvarpinu væri verið að stækka verulega það mengi fólks á vinnumarkaði sem lög um almennar íbúðir taka til án þess að horfa til þeirra áhrifa sem slík breyting hefði á fólk sem er utan vinnumarkaðar.

Í umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar er gerð athugasemd við afmörkun þess hóps sem um ræðir. Telur velferðarsviðið mikilvægt að tilgreind séu sérstök tekju- og eignamörk sem eigi einungis við um þann hóp leigjenda sem leigir félagslegt húsnæði hjá sveitarfélögum. Telur velferðarsvið Reykjavíkurborgar það valda vissri skekkju að sömu tekjumörk séu fyrir leigjendur félagslegs leiguhúsnæðis hjá sveitarfélögunum og alla aðra leigjendur sem falla undir lög um almennar íbúðir. Slíkt feli í sér að allir einstaklingar sem falli undir tekjumörk í frumvarpinu geti, að öðrum skilyrðum uppfylltum, átt rétt á félagslegu leiguhúsnæði frá sveitarfélagi. Telur velferðarsvið Reykjavíkurborgar það varla geta verið í samræmi við upphaflegan tilgang með lögum um almennar íbúðir. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar rekur í umsögn sinni hverjar árstekjur einstaklinga megi nú vera svo að þeir geti talist eiga rétt á félagslegu leiguhúsnæði miðað við frumvarpið og telur ljóst að hóparnir sem hingað til hafi helst átt þann rétt séu þeir sem fái fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, þ.e. að öryrkjar og atvinnulausir, auk þeirra sem eru tekjulægstir, muni eftir breytingarnar, sem meiri hluti velferðarnefndar tekur undir, bera skertan hlut.

Í umsögn Félagsbústaða hf. koma einnig fram áhyggjur af þeim hópi sem til þessa hefur átt rétt á félagslegu húsnæði. Benda Félagsbústaðir hf. á að allar breytingar á lögum um almennar íbúðir hafi veruleg áhrif á starfsemi félagsins og þar með á alla þá sem treysta á þjónustu félagsins. Félagið sé langstærsta leigufélag félagslegs húsnæðis á Íslandi með eignasafn sem samanstandi af rúmlega 2.700 íbúðum. Ríflega 6.000 einstaklingar nýti sér þjónustuna og því sé ljóst að um umtalsverðan hóp er að ræða. Félagsbústaðir telja frumvarpið fela í sér mikla fjölgun þeirra einstaklinga sem munu eiga kost á almennum íbúðum vegna hækkunar tekju- og eignamarka og vegna áforma um byggðaframlög þar sem skortur er á leiguhúsnæði. Telja Félagsbústaðir að félagslegar íbúðir sveitarfélaga verði settar í minni forgang fyrir árið 2020–2022. Stangist það á við það skýlausa ákvæði núgildandi laga að félagslegar íbúðir sveitarfélaga skuli njóta forgangs allt að 25% af ráðstöfunarfé. Félagsbústaðir benda á að þeir séu með metnaðarfulla áætlun um uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði til að mæta brýnum þörfum en fyrirséð sé að þeir hópar sem áður hafa átt þess kost að sækja um félagslegt húsnæði verði hliðsettir næstu tvö til þrjú árin. Minni hlutinn tekur undir umsögn Félagsbústaða hf. um að þetta sé óviðunandi þar sem stjórnvöld séu með þessu að senda þau skilaboð að uppbygging á félagslegu leiguhúsnæði hjá sveitarfélögunum verði eftir lagabreytinguna að mestu á ábyrgð sveitarfélaganna, a.m.k. fyrir umrætt tímabil 2020–2022. Þetta geta nú varla átt að vera þau skilaboð sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sendir þeim sem þurfa mest á stuðningi að halda.

Þá gera Félagsbústaðir einnig athugasemd við að verið sé að fella brott heimild sveitarfélaga til þess að veita allt að fjögurra prósentustiga viðbótarframlag vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði eru á því að fá fjármögnun á almennum markaði. Þótt Íbúðalánasjóði yrði heimilt að veita allt að 6% viðbótarframlög frá ríkinu vegna leiguíbúða á sömu svæðum er slík breyting án þess að gerð sé sérstök grein fyrir henni. Í því sambandi telur minni hlutinn það hljóta að vera eðlilegt að sveitarfélögin hafi slíka heimild og það sé undir þeim komið hvort þau nýti sér hana.

Þá er sú forgangsröðun sem lagt er til að verði lögfest í c-lið 11. gr. sú sama og viðhöfð hefur verið hjá stjórnvöldum undanfarin ár. Benda Félagsbústaðir á að sú forgangsröðun hafi nú þegar haft bein áhrif á getu félagsins til að mæta uppsafnaðri þörf þeirra sem þurfa á félagslegu leiguhúsnæði að halda. Verði það bráðabirgðaákvæði lögfest sé einnig fyrirséð að staðan verði óbreytt og að þeir sem njóta þjónustu félagsins verði settir til hliðar næstu tvö til þrjú árin.

Með vísan til framangreinds leggst minni hlutinn gegn því að málið verði samþykkt óbreytt, einfaldlega vegna þess að það virðist vera sem lítið tillit hafi verið tekið til hóps þeirra sem hvað höllustum fæti standa og vegna þess að ónógur tími var gefinn í þetta mál. Það er rétt að taka það fram að minni hlutinn er ekki að leggjast gegn átaki á húsnæðismarkaði, alls ekki. Minni hlutinn er ekki að leggjast gegn því að stjórnvöld geri samninga við aðila vinnumarkaðarins um átak á húsnæðismarkaði, hreint ekki. Minni hlutinn er að gera athugasemdir við að í sömu kökuna eigi að setja þá sem nú eru loksins á horfa fram á bjartari tíma, þ.e. semja við aðila á vinnumarkaði er varða húsnæðismál en gleyma hópi þeirra sem hvað höllustum fæti standa, þ.e. þeim sem eru öryrkjar, eldri borgarar, námsmenn og atvinnulausir, því að lífskjarasamningurinn á jú ekki við þann hóp.