150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[13:16]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Já, það virðist vera sem meiri hlutanum þyki sómi að því að kalla ekki inn fólk sem skilar umsögn eftir að umsagnarfresti lýkur. En ég hef ekki áður séð svo mikilli hörku beitt hér, sérstaklega þegar um er að ræða langsamlega stærsta sveitarfélagið í landinu, að láta eins og sá tímarammi sem gefinn var geri að verkum að umsagnir og mjög faglegar ábendingar þeirra aðila sem þjónusta langstærsta hópinn skuli virtar að vettugi af meiri hluta hv. velferðarnefndar, einfaldlega vegna þess að þær koma of seint. Það bendir eiginlega til þess að vinna þessa frumvarps og fagleg vinna þingmanna snúist bara um að koma málunum í gegnum nefndina en ekki að gera það faglega. Jafnvel stórir aðilar geta farið fram yfir umsagnarfrest og ef um er að ræða slíkan aðila, eins og Reykjavíkurborg er í þessu tilviki, er eiginlega alveg ótrúlegt að taka ekkert tillit til umsagnarinnar, einfaldlega vegna þess að hún kemur of seint. Það eru ekki málefnaleg sjónarmið. Ég lýsi furðu minni á þeim vinnubrögðum.