150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

úrvinnsla eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs.

381. mál
[13:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs. Ég ætla að reyna að klára þessa framsögu í eins stuttu máli og kostur er. Almennt má segja að í þeim umsögnum sem nefndin fékk vegna þessa máls, sér í lagi frá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, var nokkuð gagnrýnt að umgjörð á ÍL-sjóði, eins og hann myndi þá starfa innan fjármálaráðuneytisins, væri ekki nægjanlega skýr en almennt má þó segja að umsagnaraðilar hafi tekið undir það meginmarkmið frumvarpsins að það væri til bóta að aðskilja þessa starfsemi frá því sem frá áramótum verður Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Nefndin tók að talsverðu leyti tillit til þeirra umsagna sem fram komu og gerir þó nokkrar breytingartillögur við frumvarpið til að skerpa á einmitt áðurnefndri umgjörð um starfsemi sjóðsins.

Í stuttu máli er í 1. gr. bætt við að kveðið skuli á um áhættustefnu sjóðsins til að stuðla að meginmarkmiði hans sem er að draga úr áhættu ríkissjóðs vegna þessara eigna og skulda Íbúðalánasjóðs.

Jafnframt er gerð sú breyting við 2. gr. að ráðherra skuli, en sé ekki aðeins heimilt, skipa verkefnisstjórn, að hún skuli skipuð til þriggja ára í senn að hámarki og að þeir stjórnarmenn skuli uppfylla hæfisskilyrði stjórnarmanna lífeyrissjóða.

Við 5. mgr. 3. gr. er bætt tveimur nýjum málsliðum sem skerpa á því hvað koma skuli fram í þeirri skýrslu sem leggja skal fyrir Alþingi árlega vegna starfsemi sjóðsins.

Af öðrum meginbreytingum má nefna að í 6. gr. er ráðherra aftur gert skylt að setja reglugerð um starfsemi sjóðsins þar sem m.a. skuli kveðið á um áhættuvilja og áhættustýringu ÍL-sjóðs, hvernig eignastýringu sjóðsins og eftirliti skuli háttað og um hlutverk verkefnisstjórnar að öðru leyti. Í reglugerðinni skuli jafnframt kveðið á um hvernig opinberri upplýsingagjöf til verðbréfamarkaðar skuli háttað og um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja.

Síðan er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða verði bætt inn tveimur nýjum málsgreinum, að ráðherra skuli skipa verkefnisstjórn í fyrsta sinn fyrir 1. apríl 2020 og að skýrsla ráðherra til Alþingis fyrir árið 2021, samanber 5. mgr. 3. gr., skuli innihalda umfjöllun um þá vinnu sem fram hafi farið um endurskoðun laganna.

Ég hygg að með þessum breytingum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til sé komið að verulegu leyti til móts við þær athugasemdir sem bárust um málið í umsagnarferli.

Undir nefndarálitið rita Óli Björn Kárason formaður, Þorsteinn Víglundsson framsögumaður, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.