150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

úrvinnsla eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs.

381. mál
[13:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Stutta svarið um tapið er að þær upplýsingar sem nefndin fékk í umfjöllun um málið eru að það er áætlað að það geti orðið allt að 140 milljarðar. Það er eins og margt í þessu enn háð verulegri óvissu og ræðst m.a. og kannski fyrst og fremst af því hver þróunin verður á langtímavöxtum hérna á næstu árum. Haldi vextir áfram að lækka enn frekar er viðbúið að þetta tap geti orðið jafnvel enn meira.

Hins vegar er það í sjálfu sér ekki viðfangsefni þessa frumvarps. Það er ekkert sem við getum gert til að stemma stigu við því tapi sem þarna er orðið, það varð vegna mistaka sem áttu sér stað í tengslum við lagasetningu árið 2004, ef ég man rétt, þar sem gert var ráð fyrir uppgreiðsluheimildum á útlánum Íbúðalánasjóðs en þau skuldabréf sem Íbúðalánasjóður fjármagnaði sig með voru ekki uppgreiðanleg. Það er meginorsökin fyrir því mikla tapi sem þarna hefur myndast á undanförnum árum.

Það var hins vegar samdóma álit þeirra sem veittu umsögn um málið, og mér heyrðist nefndin að sama skapi vera nokkuð sammála um það, að skynsamlegt væri að taka þessar eignir út og undir beina stjórn ríkissjóðs til að reyna að lágmarka tapsáhættuna eins og frekast væri unnt.

Hvað varðar verkefnisstjórnina verður fjármálaráðuneytið að svara hvort um verði að ræða einhverjar sérstakar launagreiðslur fyrir setu í slíkri verkefnisstjórn eða ekki. Minn skilningur er í það minnsta sá að þarna sé um að ræða starfsmenn ráðuneytisins sem hafa að hluta til þær starfsskyldur að sitja í þessari verkefnisstjórn. En fjármálaráðuneytið verður að svara fyrir nákvæmlega hvernig þetta verður útfært.