150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

úrvinnsla eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs.

381. mál
[13:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það hlýtur að vera rannsóknarefni hvernig þau mistök gátu orðið að þetta rosalega tap er komið til út af einhverjum mistökum sem voru gerð og hvort það hafi verið kannað hvort menn læri af því til frambúðar í þessu samhengi. Virkir vextir heildarskulda sjóðsins eru 4,34% og eins og staðan er í dag virðist vaxtastigið vera það lágt að það verði það áfram. Tapið virðist vera töluvert mikið og mér sýnist það eiga eftir að aukast. Maður hlýtur að spyrja hvernig þetta hafi getað skeð og hvort verið sé að hnýta alla lausa enda þannig að þetta komi ekki fyrir aftur. Það hlýtur að vera eitthvað að í stjórnun þegar við erum að tala um þessa gífurlegu upphæð. Þetta er ekki nein smáupphæð. Hárin rísa á mörgum þegar talað er um 10–15 milljarða gagnvart öryrkjum og eldri borgurum en þarna erum við að tala um vel á annað hundrað milljarða. Það hlýtur að þurfa að athuga þetta mjög vel.