150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

neytendalán.

223. mál
[13:44]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Frumvarp hæstv. ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um breytingu á lögum um neytendalán, nr. 33/2013, tók breytingum til batnaðar í meðferð efnahags- og viðskiptanefndar. Minni hluti nefndarinnar telur að breytingartillögur meiri hlutans séu til mikilla bóta og með þeim náist mun betur en ella markmið frumvarpsins um að auka neytendavernd.

Smálánafyrirtæki hafa verið gagnrýnd allt frá því að þau byrjuðu að hasla sér völl hér á landi 2010, einkum vegna kostnaðar við lántöku og ágengrar markaðssetningar lánanna sem beinist að ungu fólki og fólki sem stendur veikt fyrir.

Neytendasamtökin hafa bent á að mikill skortur sé á neytendavernd og aðstoð við lánþega ólöglegra smálána við að leita réttar síns. Fyrir liggi að stór hópur fólks hafi orðið fyrir fjárhagsskaða vegna ófullnægjandi úrræða, skorts á eftirliti og seinagangs í kerfinu. Neytendasamtökin lýsa yfir þungum áhyggjum af stöðu brotaþola smálánafyrirtækja. Vegna eðlis málanna telja samtökin brýnt að stjórnvöld bregðist hratt við til að vernda hagsmuni þeirra sem brotið hefur verið á og aðstoði við að endurheimta fé sem haft hefur verið af fólki með ólögmætum hætti. Minni hlutinn tekur undir þessar áhyggjur og áskorun til stjórnvalda um skjót viðbrögð. Líkt og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans snýr hluti þess vanda sem við er að etja að innheimtuþættinum. Minni hlutinn tekur undir það álit meiri hlutans að afar brýnt sé að skýra betur reglur um löginnheimtu og eftirlit með starfseminni, að þeirri vinnu verði hraðað sem kostur er og að frumvarp um bættan lagagrundvöll innheimtumála verði lagt fram á vorþingi.

Hér á landi eru smálánafyrirtæki hvorki leyfisskyld né skráningarskyld. Öll önnur norræn ríki hafa horfið frá skráningarskyldu og tekið upp leyfisskyldu. Þannig fer fram leyfissvipting ef fyrirtækin brjóta ítrekað lög og reglur sem um þau eru sett. Minni hlutinn leggur til þá breytingu að einnig verði tekin upp leyfisskylda fyrir smálánafyrirtækin hér á landi og litið til reynslu annarra norrænna ríkja hvað það varðar. Skráningarskylda sú sem meiri hlutinn leggur til í breytingartillögu er til bóta en þar sem reynsla annarra norrænna ríkja er á þann veg að hún nægi ekki og að leyfisskylda skili betri árangri vill minni hlutinn fara eftir því. Minni hlutinn tekur undir það sjónarmið að lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eigi að gilda um starfsemi smálánafyrirtækja.

Samkvæmt 26. gr. laga um neytendalán má árleg hlutfallstala kostnaðar (ÁHK) á neytendalánum ekki nema meira en 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum. Minni hlutinn telur að um okurvexti sé að ræða og að nauðsynlegt sé að lækka kostnaðarviðmiðið. Meiri hlutinn leggur til að hámark ÁHK lækki í 35% sem er sannarlega til bóta en minni hlutinn telur ekki nóg að gert með þeirri tillögu. Því leggur minni hlutinn fram breytingartillögu um að ÁHK á neytendalánum megi ekki vera meira en 20% að viðbættum stýrivöxtum. Sú tala er ekki úr lausu lofti gripin heldur er litið til fyrirmyndar frá Finnlandi um hámark ÁHK neytendalána þar á landi.

Meiri hlutinn leggur fram breytingartillögu um að sett verði skilyrði um auðkenningu til að lánssamningur teljist skuldbindandi, annaðhvort með eiginhandarundirskrift eða fullgildri rafrænni undirskrift í skilningi laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, sé lánssamningur gerður í fjarsölu. Minni hlutinn styður þessa breytingartillögu.

Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali og eru eins og þar stendur. Undir þetta nefndarálit álit skrifar sú sem hér stendur og hv. þingmenn Þorsteinn Víglundsson og Smári McCarthy.

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu talsmanns meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar hér áðan var samhliða breytingu á lögum um neytendalán frá hæstv. ráðherra neytendamála rætt frumvarp mitt um sérlög yfir smálánafyrirtækin. Þetta var rætt samhliða í efnahags- og viðskiptanefnd enda var mælt fyrir málunum á svipuðum tíma. Ég vil segja það hér, herra forseti, að ég var mjög ánægð með það hvernig formaður nefndarinnar, hv. þm. Óli Björn Kárason, tók á þessum málum í nefndinni og með undirtektir nefndarmanna við tillögu hans um að ræða þessi mál saman og spyrja gesti bæði út í frumvarp ráðherrans og eins frumvarpið sem ég var 1. flutningsmaður að, þó að þar hafi verið gert ráð fyrir sérlögum fyrir smálánafyrirtæki.

Í meðhöndlun nefndarinnar urðu til þessar ágætu breytingartillögur. Þótt minni hlutinn vilji ganga lengra hvað varðar leyfisskyldu og lægri vaxtaprósentu þá eru, eins og ég sagði áðan, breytingartillögur meiri hlutans til mikilla bóta. Hins vegar er ekki nóg að gert og við þurfum að halda áfram að fylgjast með þessum fyrirtækjum. Það má vera að það þurfi sérlög fyrir smálánafyrirtæki en við þurfum að skilgreina þau vel og hafa ramma í kringum smálánafyrirtækin öðruvísi en í kringum önnur neytendalán, eins og yfirdrætti o.s.frv., vegna sérstöðu þessara fyrirtækja og vegna reynslunnar af þeim og hvernig þau beita bæði markaðssetningu sinni og innheimtu og slíku. Það var hins vegar ekki niðurstaðan núna. Núna erum við að gera breytingar sem eru til batnaðar á lögum um neytendalán en höldum áfram að fylgjast með þessum fyrirtækjum.

Ég vil að lokum, herra forseti, þakka fyrir samstarfið í efnahags- og viðskiptanefnd um þetta mál.