150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

tekjustofnar sveitarfélaga og sveitarstjórnarlög .

391. mál
[14:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tek undir nokkurn veginn allt í áliti minni hlutans og vil bæta aðeins við. Í b-lið 10. gr. í þessu frumvarpi segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir 13. gr. b er Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimilt að nýta allt að 1.300 millj. kr. úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að mæta uppgjöri við þau fimm sveitarfélög sem fengu greidd of lág framlög úr jöfnunarsjóði á árunum 2013–2018. Jöfnunarsjóði er í stað þess heimilt að halda eftir að hámarki sömu fjárhæð af heildarframlögum jöfnunarsjóðs samkvæmt d-lið 11. gr. og a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna á árunum 2020–2026 sem renna skal í Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, samanber 13. gr. b.“

Það er verið að taka peninga úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að gera upp þennan mismun og svo er verið að bæta fasteignasjóðnum það aftur. Að því leyti til á það að vera allt í lagi fyrir fasteignasjóðinn sem er vel stöndugur en — þarna er hinn stóri vafi — Alþingi samþykkir ákveðin framlög og útreikninga á framlögum til jöfnunarsjóðsins og útdeiling fór til allra sveitarfélaga samkvæmt þeirri úthlutun, til þeirra sveitarfélaga sem ekki eru þau fimm sem fengu of lág framlög. Ég lít því svo á að ekki sé hægt að taka frá þeim sveitarfélögum til að borga þeim sveitarfélögum sem fengu of lág framlög. Það var einfaldlega ákvörðun Alþingis að sú upphæð sem fór til allra hinna sveitarfélaganna hafi verið rétt með tilliti til þeirra ákvarðana sem eru teknar inni á þingi, þannig sé í rauninni skerðing að taka þau framlög til baka frá þeim en ég tel það ekki ganga upp. Ég tel að b-liður 10. gr. sé einfaldlega ekki góður. Það á að taka þetta úr ríkissjóði til að bæta þeim sveitarfélögum sem fengu of lág framlög þannig að öll hin sveitarfélögin séu ekki með skert framlög á næstu árum vegna þessarar tilfærslu og þá í rauninni Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þegar á það er litið.

Í öðru lagi var málsmeðferðin mjög undarleg. Það var boðaður fundur með mjög stuttum fyrirvara, 20 mínútna fyrirvara eða svo, í lok þingfundar þegar málið kom á dagskrá, til að drífa frumvarpið í umsagnarferli. Ég missti af því fundarboði, svo einfalt er það, ég rétt hafði tíma til að kíkja og sjá að með hálftímafyrirvara ætti að drífa málið í gegn. Á þeim tíma bjóst ég ekkert við því endilega að málið myndi klárast fyrir áramót en að sjálfsögðu var það ætlunin án þess að gerð hefði verið grein fyrir því, a.m.k. að því er mér fannst. Þessi vinnubrögð ganga ekki upp. Eins og kom fram í máli hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson er það þinglega meðferðin, lagasetningin sjálf, sem á að sinna á hágæðaforsendum.

Þau sem geta tryggt að svo sé eru í meiri hluta þingsins. Það er ekkert flóknara en það. Meiri hluti þingsins vill einfaldlega ekki að sum mál fái gæðameðferð. Það er eina ályktunin sem hægt er að draga af málum sem þessum sem er troðið í gegn á örskotsstundu án þess að hægt sé að fá umsagnir eða aðra þinglega meðferð. Það er einfaldlega þeirra skömm.