150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég virði alveg í sjálfu sér þær skoðanir á málinu sem komu fram hér áðan hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, en það eru skoðanir. Það er t.d. miklu nær fyrir hann að svara því hvernig þetta standist ekki stjórnarskrána en mitt að svara því hvernig það geri það, einfaldlega vegna þess ég sé engin merki um að þetta geri það ekki. Hv. þm. Björn Leví verður þá að sýna mér fram á í hvaða greinum þetta standist ekki stjórnarskrána.

Sömuleiðis er hann með staðhæfingar án þess að færa fyrir þeim rök undirliggjandi við spurninguna um það hvort þetta feli í sér óbreytt útgjöld af ríkisins hálfu eða ekki. Það hefur verið lagt fram í meðförum nefndarinnar á þessu máli það mat ráðuneytanna að þetta feli ekki í sér, þegar til lengri tíma er litið, neinar breytingar, hvorki til hækkunar né lækkunar, á þeim skuldbindingum fjárhagslegum sem þetta hefur í för með sér fyrir ríkið. Þetta er auðvitað breyting á eðli samningsins. Þetta er ekki þjónustusamningur, ekki þjónustukaupasamningur samkvæmt skilgreiningu, í eðli sínu, heldur er þarna verið að leitast við að skilja á milli ríkisins og kirkjunnar að þessu leyti. En þetta er ekki þannig að það sé verið að kaupa af þjóðkirkjunni skilgreinda þjónustu, eins og t.d. fjölda prestsverka eða neitt þar fram eftir götunum þannig að þetta er í eðli sínu ekki þjónustukaupasamningur af hálfu ríkisins.