150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[15:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla að byrja á að segja að ég skal með gleði semja þetta frumvarp, það er minnsta mál í heimi og ekkert því til fyrirstöðu. Við erum að tala um, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, 90.000 kr. sem koma til framkvæmda að fullu rétt fyrir næstu kosningar ef að líkum lætur, sem eru 7.500 kr. á mánuði til fátækasta þjóðfélagshópsins, hópsins þar sem 12–15% barna búa við fátækt, hópsins sem hefur verið skilinn eftir. Meginþunginn í þessari tillögu er leiðrétting á þeirri kjaragliðnun sem þessir þjóðfélagshópar hafa orðið fyrir, tæplega 30% á síðustu tíu árum. Þeir hafa ekki fengið að fylgja 69. gr. almannatryggingalaga þar sem kveðið er á um að þeir skuli fá leiðréttingu framfærslu sinnar einu sinni á ári samkvæmt launaþróun í landinu. Var það t.d. brot á jafnræðisreglu þegar hv. þingmenn fengu 43% hækkun á sínum launum? Er það brot á jafnræði þegar forstjóri Landsvirkjunar fær tvöföldun á sínum launum á fimm árum? Er það brot á jafnræði þegar laun bankastjóra ríkisbankanna hækka um 1,2 millj. kr. á ári eða er það brot á mannréttindum að halda þúsundum einstaklinga langt undir fátæktarmörkum?

Þetta er mannanna verk og ekkert annað. Ég ítreka að ég skal með gleði taka utan um málið og smíða þetta frumvarp persónulega og prívat sjálf ef þið treystið ykkur ekki til þess.