150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við erum búin að búa til alveg stórfurðulegt kerfi, almannatryggingakerfið. Ég myndi segja að við værum að einfalda það með því taka út þessa skerðingar. Við erum að fara að samþykkja 10.000 kr. skatta- og skerðingarlaust fyrir öryrkja núna fyrir jólin. Hvers vegna gerðum við það? Það eru kannski settir 4 milljarðar í að hafa 65 aura á móti krónu í staðinn fyrir krónu á móti krónu en það skilar sér allt í ríkiskassann eða í kassa sveitarfélaganna. Hvers lags jafnræði er það að segja við fólk að við ætlum að hjálpa því en svo hverfur þetta allt saman? Í sumum tilfellum kemur sveitarfélagið og skerðir líka þegar ríkið er búið að skerða, eins og með jólabónusinn. Af því að hann er skattskyldur skerðist hann algjörlega ef maður er t.d. með sérstaka uppbót hjá ríkinu og síðan skerðist líka sérstaka uppbótin í húsnæðiskerfinu hjá sveitarfélögunum. Þegar upp er staðið getur svona peningur orðið tap. Er þá ekki eitthvað að hjá okkur? Verðum við ekki að taka þetta kerfi gjörsamlega til endurskoðunar og einfalda það mjög mikið til að hætta að plata veikt fólk sem getur ekki varið sig? Það tekur við peningunum og heldur að það sé að fá eitthvað rosalega gott en þegar upp er staðið tapar það kannski á því að taka við þessari hungurlús, eins og ég kalla það, sem skilar sér í mínus.