150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[16:15]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að nefna að við í Flokki fólksins höfum ítrekað bent á í umræðum á yfirstandandi kjörtímabili að aðgerðir ríkisstjórnarinnar, hvort sem er í sambandi við tannheilsu eða hvað annað sem hér er tínt til af fulltrúum stjórnarmeirihlutans sem eiga að bæta hag þeirra verst settu í samfélaginu, ganga ekki nógu langt. Það segir sig sjálft þegar við erum nýbúin að fá skýrslu, 28. febrúar sl., um úttekt á stöðu íslenskra barna hjá Kolbeini H. Stefánssyni, að hér búi 12–15% barna við mismikinn skort. Hann dregur sérstaklega fram í skýrslunni hvaða þjóðfélagshópur á um sárast að binda og það er hópur öryrkja. Þegar við erum með þetta í fanginu og ætlum að reyna á einhvern máta að réttlæta það að við hér, löggjafinn með fjárveitingavaldið, séum ekki bær og burðug til að koma til móts við þennan þjóðfélagshóp er dregið fram eitthvað sem heitir hugsanlegt brot á jafnræðisreglu. Ég hef heyrt alls konar hugmyndir en þessi toppar þær sennilega flestar.

Til að byrja með langar mig líka að benda á að akkúrat þetta mál um 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust fyrir almannatryggingaþega, sem hafa ekkert annað á að stóla en þessa framfærslu, er eitt af þeim fimm málum Flokks fólksins sem við höfum þegar mælt fyrir í haust í hinum svokallaða velferðarpakka okkar. Eitt af þessum fimm málum, sem ugglaust kemur ekki hingað inn, er um nákvæmlega það hvernig við förum að því að fjármagna þetta. Ég bjóst við að málið færi ekki lengra og er bara glöð að fá það inn því að allt er svæft í nefnd. Það er vondur málstaður að verja fyrir hvaða ríkisstjórn sem er þegar greidd verða atkvæði á móti því að veita ráðherra heimild til að leggja fram frumvarp sem kemur á 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust fyrir fátækasta fólkið í landinu. Það hlýtur að vera ömurlegur málstaður að verja, ég segi ekki annað en það, og sérstaklega fyrir ríkisstjórn undir forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem hefur gefið sig út fyrir að vilja koma til móts við þá sem höllustum fæti standa í þessu samfélagi. En svona er að marka það. Hér eru tínd til alls konar atriði, t.d. 7.500 kr. skattalækkun í þriðja skattþrepi sem kemur til framkvæmda rétt fyrir næstu kosningar. Þá er hægt að hreykja sér á hæsta tindi og segja: Sjáið hvað við gerðum. Við lækkuðum skattana ykkar um 7.500 kr., sjáið bara, en það kostar ríkissjóð 23 milljarða kr. Er þetta eðlileg forgangsröðun fjármuna? Ég segi: Nei, það er ekki eðlileg forgangsröðun fjármuna að lækka skattana um 7.500 kr. eftir meira en eitt og hálft ár á sama tíma og ríkisstjórnin hrúgar inn alls konar sköttum og viðbótargjöldum á almenning í landinu. Ég hef ekki einu sinni hugmyndaflug til að nefna alla þá skatta og allar þær álögur sem er núna verið að leggja á landsmenn.

Við í Flokki fólksins lögðumst gegn gildandi fjármálaáætlun, m.a. vegna þess að fjármuni vantaði til að leiðrétta uppsafnaða kjaragliðnun lífeyrisþega almannatrygginga. Það var ekkert gert með það. Hvað þýðir það, virðulegi forseti, þegar einhver þjóðfélagshópur er skilinn eftir í tíu ár á meðan aðrir fá kjarabætur? Hvernig var það aftur eftir hrun? Er nokkur búinn að gleyma hruninu? Við höfum aldrei almennilega gert það upp og sannanlega ekki gagnvart þeim þjóðfélagshópum sem við erum að berjast fyrir hér og nú, sem við erum að reyna að draga hér upp í 300.000 kr. lágmarksframfærslu. Nei, þá á að tengja það saman við aðra sem eru með miklu betri afkomu og miklu meiri möguleika á að bjarga sér. Eitt af fimm málum Flokks fólksins í hinum svokallaða velferðarpakka er akkúrat 350.000 kr. útborgaðar fyrir vinnandi fólk í landinu til að koma í veg fyrir sorgarsögu eins og ég las í blaði um daginn, um unga konu sem er að vinna á elliheimilinu Grund. Hún vinnur fulla vinnu, einstæð móðir með litla telpu, leigir 40 fermetra holu fyrir 150.000 kr. á mánuði og fær útborgaðar 240.000 kr. ef hún er heppin. Að hugsa sér, virðulegi forseti, að á sama tíma talar hæstv. fjármálaráðherra um hvað excel-skjalið er okkur jákvætt, hvað við skorum hátt hjá OECD, hvað við höfum það alveg rosalega frábært. Það er alltaf gott að geta lifað á meðaltali og gera lítið úr því hversu mörg tugþúsund Íslendinga eiga virkilega um sárt að binda.

Það er eiginlega með hreinum ólíkindum hvað hugmyndaflugið er slappt í meirihlutaáliti hv. velferðarnefndar en eins og ég sagði verður að reyna að finna upp eitthvað sem gæti hljómað vel hér, eitthvað sem gæti virkað eins og það væri skynsamlegt sem það er alls ekki.

Við felum ráðherra að undirbúa að leggja fram frumvarp til að hann taki það í sitt fang, að ráðuneyti hans útbúi kostnaðarmat verði tillagan samþykkt. Það er auk þess best að fela ráðuneytinu að útbúa slíkt kostnaðarmat, ekki satt, þrátt fyrir að ég hafi boðist til þess í andsvörum áðan við hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson að ég skyldi gjarnan semja þetta frumvarp sjálf því að hann var ekki viss um að það væri gerlegt, þetta yrði svo rosalega þvælið og erfitt viðfangs.

Flokkur fólksins hefur lagt til leiðir til tekjuöflunar sem myndu standa undir útgjaldaaukningu vegna leiðréttinga á kjaragliðnun lífeyrisþega almannatrygginga. Vilji Alþingi leiðrétta uppsafnaða kjaragliðnun eru möguleikar til staðar til að tryggja fjármögnun þess, það er ekkert vandamál. Við höfum bent á ýmislegt. Ýmsar leiðir eru í boði. Hver þekkir ekki sölu ríkiseigna? Hver þekkir það ekki hvernig ríkiseigur okkar, sem við höfum átt, hafa verið seldar langt undir kostnaðarverði? Ég ætla ekki einu sinni að fara út í það hér og nú til hverra, handa hverjum, fyrir hvern og hvers vegna. Það ætla ég ekki að gera, ég ætla að láta það liggja algjörlega á milli hluta. En almenningur talar og sjaldan lýgur almannarómur.

Þegar bent er á námsmenn og atvinnuleitendur munum við auðvitað taka fagnandi öllum þeim tillögum sem miða að því að tryggja betur hagsmuni þeirra. Það segir sig sjálft. En þessi tillaga er afmörkuð við eitt ákveðið markmið, eitt ákveðið efni, og það er að tryggja fátækasta fólki í landinu 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Ég hef sjálf verið í þeim sporum, var þar meira og minna þar til ég kom á þing. Ég hef þurft að horfa á börnin mín fjögur og kvíða jólunum. Ég veit hvernig það er að geta ekki gefið þeim nokkurn skapaðan hræranlegan hlut og þakkað fyrir að geta gefið þeim að borða. Það eru þúsundir svoleiðis foreldra úti í samfélaginu í dag. Þetta er allt saman mannanna verk og það eina sem þarf til að breyta því er vilji valdhafanna. Og hverjir ráða? Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Í þeirra umboði er staðan eins og hún er í dag. Það er þeirra að breyta henni til batnaðar. Það er þeirra að sýna að þau hafi meint eitthvað með því sem þau voru að tjá sig um fyrir síðustu kosningar. Það er ekki nóg að tala um 300.000 kr. lágmarkslaun, virðulegi forseti, þegar búið er þannig um hnútana að 42.000 kr. eru teknar af þeim beint til ríkisins aftur í formi skatta.

Það er óforsvaranlegt að meiri hluti velferðarnefndar noti þau rök gegn þessari tillögu að hún brjóti gegn jafnræðisreglunni. Tillagan hefur það að markmiði að vinna gegn viðvarandi mismunun kerfisins gagnvart lífeyrisþegum almannatrygginga sem felst í því að Alþingi tryggi ekki að kjör lífeyrisþega fylgi launaþróun. Tillagan miðar einmitt að því að leiðrétta uppsafnaða kjaragliðnun. Uppsöfnuð kjaragliðnun lífeyrisþega almannatrygginga er hið raunverulega brot á jafnræðisreglunni og ekkert annað. Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt í verki vilja til að leiðrétta það brot á jafnræðisreglunni en beitir þess í stað jafnræðisreglunni sem rökstuðningi gegn því að leiðrétta kjör hinna verst settu. Hvers lags eiginlega er þetta, virðulegi forseti? Af hverju skyldi þessi meiri hluti sem er kominn að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar hafa gleymt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sem segir skýrt og skorinort: „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika“? Af hverju ætli hann gleymi þessari grein stjórnarskrárinnar og geri nánast ekkert úr henni?

Með tillögunni eru ekki skertir með neinum hætti hagsmunir atvinnulauss fólks, fólks í fæðingarorlofi eða vinnandi fólks. Þetta eru eðlisólík mál. Fæðingarorlof og atvinnuleysisbætur eru tímabundin úrræði en lífeyrir almannatrygginga miðar hins vegar að því að tryggja framfærslu til frambúðar. Hér er því um eðlisólíka greiðsluflokka að ræða og ekki hægt að leggja þá að jöfnu með jafnræðisreglu.

Ég hlakka virkilega til þegar málið kemur til atkvæðagreiðslu. Ég hlakka til þegar kemur að nafnakalli. Ég hlakka til að fólkið í landinu sjái raunverulegan vilja löggjafans og fjárveitingavaldsins til að koma til móts við okkar minnstu bræður og systur. Ég leyfi mér að efast um að þau sem segja nei hafi nokkurn tímann vitað hvað það er að vera fátækur, hafi nokkurn tímann þurft að kvíða jólunum af því að þau geti ekki einu sinni gefið barninu sínu skó í jólagjöf, hvað þá annað. Hvert einasta viðvik sem fátæka fjölskyldan þarf að gera, sem er ekki akkúrat að koma mati á diskinn, svo sem að kaupa skó, tösku, föt, úlpu, kostar of mikið og hún hefur ekki ráð á því. Mikið ofboðslega væri ég glöð í hjartanu ef hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar gerðu sér í einn dag grein fyrir þeirri líðan sem fylgir því að vera fátækur í því ríka landi sem við búum í. Ekki vildi ég vera sá maður sem tekur ákvörðun um að neita þessu fólki um réttlæti, að neita því um að taka þátt í þeirri velmegun sem hér ríkir í dag.