150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[16:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir andsvarið. Ég ætla að byrja á því að segja að vitaskuld munar um 7.500 kr., sérstaklega þegar aukaskattar bætast við á almenning upp á enn hærri upphæð, þannig að eftir standi fólk ekki í alveg jafn miklum mínus, fólk sem á ekki til hnífs og skeiðar. Hvað varðar 38 milljarða kostnaðarpakkann sem við hv. þingmaður og fleiri gerðum sameiginlega erum við með næga peninga. Við þurfum ekki að stofna þjóðarsjóð á meðan við erum að reyna að koma fólki upp úr fátækt. Við getum nýtt okkur hluta af 110 milljarða væntanlegri arðgreiðslu Landsvirkjunar, við höfum fengið 127 milljarða frá Landsbankanum á síðustu árum í arðgreiðslur. Ef við viljum getum við forgangsraðað fjármunum fyrir fólkið í landinu og sett það í fyrsta sæti, eins og ég veit að hv. þingmaður er mér hjartanlega sammála um.

Hvað lýtur að efndum kosningaloforða er búið að sýna sig í gegnum tíðina að það eru lélegar eftirlíkingar sem geta staðið fyrir framan alþjóð á fjögurra ára fresti, og stundum skemur, og lofað gulli og grænum skógum vitandi það að einhverjir muni trúa því og freistast til að setja X við þá á meðan við hin sem þekkjum það betur vitum að það er akkúrat ekkert að marka loforðin.