150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[16:35]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað er til ráða og hvernig stendur á þessu öllu saman? Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Staðan er einfaldlega sú að ekkert er gert fyrir þessa hópa. Þeir eru ekki bara í vondri samningsstöðu, þeir hafa enga samningsstöðu. Þessum þjóðfélagshópi líður eins og hann sé þriðja flokks þjóðfélagsþegnar. Við höfum kallast örorkubyrði af mörgum stjórnendum. Það er það sem öryrkjar heita á excel-skjalinu vegna þess að við erum ekki að skila nógu. Það er enginn að spá í hvað maður var búinn að skila miklu áður en maður örkumlaðist eða slasaðist, eftir að maður er búinn að vinna og þræla og borga skatta og skyldur. Maður er orðinn að örorkubyrði allt í einu og búið að kippa undan manni fótunum.

Það sem við erum að tala um líka og mig langar að nefna við hv. þm. Guðjón Brjánsson er að við í Flokki fólksins höfum lagt til svokallaðan fallandi persónuafslátt til að sækja aukið fjármagn fyrir nákvæmlega þetta. Þegar talað er um forgangsröðun fjármuna höfum við sagt: Allt í lagi, við þingmenn erum á ofurlaunum, kannski reyndar ekki ef við ætlum að miða við einhverja ríkisforstjóra úti í bæ, þeir eru flestallir miklu betur borgaðir. Þetta var smáháðsglósa hjá mér vegna þess að maður á ekkert einasta aukatekið orð þegar aðilar úti í bæ sem vinna fyrir ríkið eru jafnvel launahærri en sjálfur forsætisráðherra landsins. Fallandi persónuafsláttur felur það í sér, eins og við lögðum hann fram, að um leið og stigið er inn í hátekjuskattsþrepið fær viðkomandi einfaldlega ekki lengur persónuafslátt. Hann hefur ekki með hann að gera eins og sá sem fær útborgaðar 230.000–240.000 kr. Við viljum alfarið koma fólkinu upp í 300.000 kr. lágmarksframfærslu með því að færa fjármuni í kerfinu til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. Við köllum þetta fallandi persónuafslátt og hann er bara einn liður í því hvernig við getum, ef einhver vilji er fyrir hendi, komið hlutunum í gegn. Eins og ég segi er þetta mannanna verk. Þetta er í höndum núverandi ríkisstjórnar og við skulum sjá hvernig henni tekst til.