150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[18:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mig langar fyrst að nefna hvernig málið var afgreitt í nefndinni. Við fengum það inn í nefndina 3. desember. Það var ekki sent í umsagnarferli, það eru kallaðir inn þrír aðilar, fyrst ráðuneytið, svo hópur hagsmunaaðila og svo Samkeppniseftirlitið. Samkeppniseftirlitið segir náttúrlega bara að þetta takmarki framleiðslu á mjólk og er þar af leiðandi markaðsstýrandi hvað það varðar og að þetta kosti neytendur. Það sem þetta frumvarp snýst um í rauninni er að ganga að kröfum hagsmunasamtaka í mjólkurframleiðslu um að hætta að rekja upp mjólkurkvótakerfið, festa það aftur í sessi. Ríkið er búið að vera að vinna að því að rekja það upp og nú á að festa það aftur í sessi. Með þessu verklagi á þingi voru bara hagsmunaaðilar (Forseti hringir.) kallaðir að borðinu. Ég spurði: En hvað með Neytendasamtökin, á ekki að tala við þau? Þau hafa nú talað eitthvað um þetta þegar málið var í samráðsgáttinni, var þá sagt: „Basically“ hafa neytendur og hagsmunir þeirra engin tækifæri til að koma að borðinu. Þetta er bara keyrt í gegn með hagsmuni mjólkurframleiðenda í huga.