150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem fagna afgreiðslu þessa máls og lengingu fæðingarorlofs. Við skipum okkur með þessum breytingum á bekk með þeim sem hvað best styðja við ungar fjölskyldur sem geta átt góðan stuðning í þessu efni í framtíðinni. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa ánægju með málið en um leið líka að benda á það sem allt of oft verður út undan í umræðu um þessi mál, að þessi réttindi eru fjármögnuð með hluta tryggingagjalds. Undir lok þessa árs gerðum við breytingar á Fæðingarorlofssjóðnum vegna þess að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fóru fram úr væntingum á árinu 2019. Vegna þessa þurftum við að breyta hlutföllum tryggingagjaldsins til að styðja betur við fæðingarorlofshlutann. Með lengingu fæðingarorlofsins og því sem fram undan er munum við þurfa að ganga lengra í þá átt. Þeim mun minna verður þá eftir af öðrum hlutum tryggingagjaldsins til að standa undir þeim þáttum (Forseti hringir.) sem því er ætlað að standa undir, nefnilega hinum almenna hluta gjaldsins sem er ætlað að standa undir útgreiðslum til ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Þetta verða menn að hafa í huga í framtíðinni og við eigum eftir að taka miklu dýpri umræðu um þetta.