150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[20:59]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er með hreinum ólíkindum að hlýða á þá sem hér koma upp og gagnrýna það að við skulum stíga fram og reyna að koma fátækasta fólkinu upp í 300.000 kr.

Hæstv. fjármálaráðherra lætur eins og að ekki séu til þingsályktanir í þessu kerfi. Ég spyr: Hvenær hefur það ekki tíðkast að flytja þingsályktunartillögur? Í annan stað bendi ég á að þessi þingsályktunartillaga hefur verið rædd áður í þessum sal og þá voru ekki tæplega 60 manns hér. Ætli við höfum ekki verið tvö hérna þá, ég og Guðmundur Ingi Kristinsson? Það er ekki eins og fólk hafi ekki haft aðstæður og möguleika á því að ræða málið og koma að því á fyrri stigum ef það hefði haft minnsta áhuga á því.