150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[21:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef heyrt í þingsal frá 1. flutningsmanni þessa máls að málið kosti 36 milljarða. Ekki er fjallað mikið um það í þessari þingsályktunartillögu en 36 milljarðar eru dágóð fjárhæð. Ég heyri marga þingmenn sem hafa lýst áhyggjum af útgjaldaþróun undanfarinna ára ýmist styðja málið eða sitja hjá. Ég heyri síðan aðra þingmenn sem oft eru hér fljótir upp til þess að tala um skattahækkanir segja að ekki muni standa á þeirra stuðningi við að hækka skatta til að standa undir 36 milljarða útgjöldum. Þetta er tæplega tvöfalt hærri fjárhæð en skattalækkanirnar sem tryggðu lífskjarasamninga. Það eru ekki bara sumir sem fá skattalækkun heldur u.þ.b. 98% skattaðila. Þetta mál er gjörsamlega vanbúið, það er vanreifað og það er óskynsamlegt að styðja svona mál.

Ég segi nei.