150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[21:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Málið er vanreifað. Málið er vanbúið. Þetta er þriðja löggjafarþingið þar sem við köllum eftir 300.000 kr. lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust. Ýmsar upplýsingar og ýmsir útreikningar liggja að baki en í þessu tilviki kemur málið fram í formi þingsályktunartillögu af því að einhvern veginn hélt maður kannski að hugsanlega gæti ríkisstjórnin hugsað sér að taka utan um málið og koma því í gegn. En þegar við erum að lækka veiðigjöld, lækka bankaskatta og selja eignir landsmanna tugum milljarða undir raunvirði er ekkert sagt. Hvað er sagt þegar á að búa til þjóðarsjóð fyrir 110 milljarða og geyma þá upphæð einhvers staðar? Hvar er fólkið fyrst? Hver er að spá í það hér hvernig fjölskyldum líður með litlu börnin sín núna þegar eru að koma jól? Á ég að segja ykkur það? Því miður eru allt of fáir að spá í það heldur hugsa um krónur og aura og forgangsraða fjármunum til þess að geta látið það líta vel út á excel-skjali á meðan 12–15% íslenskra barna líða hér skort. Ég hef skömm á þessu.

Þingmaðurinn segir já.