150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[21:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á fjölmiðlalögum, nr. 38/2011, með síðari breytingum (stuðningur við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis o.fl.). Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að styðja þurfi við rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og frumvarpið er liður í því. Miklar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi fjölmiðla með tilkomu samfélagsmiðla og nýrra aðferða við miðlun efnis. Fjölmiðlar byggja afkomu sína einkum á auglýsingum og áskriftum og þegar báðir tekjustraumar minnka verulega er ljóst að erfiðleikar eru fyrir hendi. Tekjusamdrátturinn er rakinn annars vegar til þess að sífellt stærri hluti auglýsinga er birtur á vefjum erlendra stórfyrirtækja og hins vegar þess að mikið framboð er af ókeypis fjölmiðlaefni. Stjórnvöld víða um heim hafa brugðist við þessari þróun með því að veita fjölmiðlum styrki eða bæta rekstrarumhverfi þeirra með öðrum hætti. Norðurlandaþjóðir hafa verið í fararbroddi í stuðningi við einkarekna fjölmiðla um áratuga skeið. Í upphafi snerist hann einkum um dagblöð en hefur á síðustu árum einnig tekið til annarra tegunda fjölmiðlunar, svo sem netmiðla og hljóð- og myndmiðla. Í nýlegri skýrslu breska þingsins um stöðu fjölmiðla þar í landi er lögð áhersla á hlutverk fjölmiðla í lýðræðissamfélaginu, sem áður er getið, en jafnframt að stuðlað sé að framþróun og nýjungum.

Virðulegur forseti. Á þeim forsendum og á grundvelli þeirra aðstæðna sem hér hefur verið lýst er mælt fyrir frumvarpi um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Ríkisútvarpið hefur veigamiklu hlutverki að gegna í okkar samfélagi, eins og kemur fram í lögum um starfsemi þess, en það er nauðsynlegt að fleiri fjölmiðlar hafi ráðrúm til starfa, séu farvegur fyrir fjölbreytt sjónarmið og sinni þannig hlutverki sínu í samfélagi okkar. Markmið frumvarpsins er að efla fjölmiðla með því að styðja við og efla útgáfu í fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Til að ná því markmiði er gert ráð fyrir að heimilt sé að veita einkareknum fjölmiðlum fjárhagslegan stuðning sem felst í því að endurgreiða þeim hluta þess kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla slíku efni.

Líkt og áður hefur verið rakið gegna einkareknir fjölmiðlar mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélagi. Gert er ráð fyrir því að stuðningurinn efli blaðamennsku, vandaðan fréttaflutning og upplýsta umræðu. Í frumvarpinu er tekið fram að markmiðið sé einnig að styðja við málstefnu íslenskra stjórnvalda og ýta þannig undir fjölmiðlun á íslensku. Um mikilvægi þessa þarf ekki að fjölyrða. Fjölmiðlar eiga að vera hluti af sameiginlegu hagsmunamáli þjóðarinnar, að efla og viðhalda íslensku máli og búa til skilyrði þannig að unga fólkið fái tækifæri til að fylgjast með samfélagsumræðunni á eigin tungumáli.

Virðulegur forseti. Ég mun nú gera grein fyrir meginefni frumvarpsins. Eins og fram hefur komið er markmið þess að efla einkarekna fjölmiðla. Meginefni frumvarpsins fjallar því um með hvaða hætti stjórnvöld hyggjast standa að því. Gert er ráð fyrir að stuðningurinn verði annars vegar í formi endurgreiðslu allt að 18% af launakostnaði viðkomandi fjölmiðils vegna ritstjórnarstarfa og hins vegar í formi 4% sérstaks stuðnings sem einnig er miðaður við tiltekið hlutfall af launakostnaði. Gert er ráð fyrir að endurgreiðsla til fjölmiðils samkvæmt fyrra ákvæðinu geti ekki orðið hærri en 50 millj. kr. en ekki er þak á sérstökum stuðningi sem miðast við 4% af framangreindum launakostnaði. Í þessu sambandi er skilgreint í frumvarpinu hvaða störf teljist til ritstjórnarstarfa og er sú skilgreining nokkuð þröng til að vera sameiginleg öllum miðlum, þ.e. prent-, net-, hljóð- og myndmiðlum.

Virðulegur forseti. Vert er að taka fram að endurgreiðsluþáttur frumvarpsins er í anda annarra kerfa sem stjórnvöld hafa sett á laggirnar á síðustu árum til að styðja við menningu á Íslandi og nefni ég þar endurgreiðslur er varða kvikmyndir, hljóðritun og bókaútgáfu. Einnig má nefna styrki til nýsköpunarfyrirtækja og nýjan stuðningssjóð sem ber heitið Kría. Hér er um að ræða endurgreiðslu á kostnaði úr ríkissjóði til einkaaðila, hvort heldur aðila í menningar- eða í nýsköpunarstarfsemi. Fjárframlög úr ríkissjóði Íslands vegna þessa nema mörgum milljörðum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra skipi þrjá einstaklinga í úthlutunarnefnd samkvæmt tilnefningu ríkisendurskoðanda og skulu tveir uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og einn vera löggiltur endurskoðandi. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Þá er tekið fram að ákvarðanir úthlutunarnefndar um endurgreiðslur og styrki eru fullnaðarúrlausnir á stjórnsýslustigi og sæta ekki stjórnsýslukæru. Rétt er að árétta í þessu sambandi að umsækjendur hafa rétt til að bera ákvarðanir úthlutunarnefndar undir dómstóla og réttaröryggis er því gætt í hvívetna þó að ákvörðun nefndarinnar verði ekki skotið til æðra setts stjórnvalds. Ítarlegar kröfur eru gerðar til þeirra fjölmiðla sem sækja um endurgreiðslur um að umsóknum þeirra fylgi öll þau gögn sem nauðsynleg eru til að hægt sé að taka ákvörðun um afgreiðslu. Í þessu sambandi er þess t.d. krafist að fullt gagnsæi ríki er varðar eignarhald á fjölmiðli.

Til að hljóta endurgreiðslu af hluta launakostnaðar þarf umsækjandi að uppfylla ákveðin skilyrði. Skilyrðin sækja fyrirmynd sína í löggjöf annars staðar á Norðurlöndum um opinberan stuðning og ívilnanir til einkarekinna fjölmiðla. Sérstaklega hefur verið horft til norskrar og danskrar löggjafar á þessu sviði. Óhjákvæmilegt hefur þó reynst að aðlaga reglurnar íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Helstu skilyrði sem fjölmiðlar þurfi að uppfylla til að geta hlotið stuðning eru að fjölmiðill skuli vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar og hafa starfað óslitið í 12 mánuði eða lengur fyrir þann tíma sem umsókn berst til fjölmiðlanefndar. Aðalmarkmið fjölmiðilsins skal vera miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Efni hans skal vera fjölbreytt og fyrir allan almenning á Íslandi.

Gert er ráð fyrir að prentmiðlar gefi út að lágmarki 48 sinnum á ári en net-, hljóð og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar miðli nýju efni daglega. Ritstjórnarefni skal vera að lágmarki 40% af því efni sem birtist í prentmiðlum og hjá netmiðlum og einn sjötti hluti af því skal byggja á sjálfstæðri frétta- og heimildaöflun.

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar næstkomandi og að fyrstu endurgreiðslur og stuðningur miðist við yfirstandandi ár. Þá er lagt til að lögin verði endurskoðuð fyrir 31. desember 2024, enda er hér um ríkisaðstoð að ræða sem þarf að meta reglulega. Einnig þarf að meta hvort markmið laganna hafi náðst og því er gert ráð fyrir að úttekt á áhrifum og árangri stuðnings á einkarekna fjölmiðla samkvæmt frumvarpi þessu verði gerð fyrir lok árs 2023.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er leitast við að Ísland skipi sér í hóp með öðrum Norðurlandaþjóðum og fleiri ríkjum í Evrópu sem styrkja einkarekna fjölmiðla og stuðla þannig að fjölbreytni í fjölmiðlum. Þess er vænst að sá stuðningur sem frumvarpið gerir ráð fyrir geri fjölmiðlum kleift að efla ritstjórnir sínar, vera vettvangur skoðanaskipta og tjáningarfrelsis og með þeim hætti rækja hlutverk sitt sem einn af hornsteinum lýðræðisins.

Að því mæltu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr., virðulegi forseti, vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.