Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[22:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vek athygli á því að rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi hefur verið mjög frábrugðið því sem gerist á Norðurlöndunum. Í fyrsta lagi eru ríkisfjölmiðlar þar ekki á auglýsingamarkaði og í öðru lagi njóta þeir stuðnings hins opinbera, m.a. út af því menningarlega mikilvægi sem fjölmiðlar gegna í lýðræðislegum samfélögum. Rekstrarskilyrðin eru allt önnur. Það hefur löngum verið áætlun stjórnvalda að styðja betur við þetta umhverfi og nú er komið frumvarp sem hefur það að markmiði að styrkja þennan markað í anda þess sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Ég tel mjög brýnt að málið fari nú til nefndar og að þær athugasemdir sem nefndarmenn hafa og þær breytingar sem þeir vilja gera komi fram í störfum nefndarinnar.