150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[22:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær athugasemdir sem fram hafa komið, í fyrsta lagi að þetta muni hafa áhrif á sjálfstæði fjórða valdsins, að fjölmiðlar verði ekki sjálfstæðir vegna ríkisstuðnings, og hins vegar spyr hann hvort við séum að bjóða upp á lausn fyrir fjölmiðla gærdagsins, eins og ég skil hann. Fyrst er það að nefna varðandi sjálfstæðið að eins og ég hef nefnt áður lítum við til annarra ríkja og skoðum hvaða leiðir þau hafa farið. Þessi leið hefur reynst býsna vel annars staðar á Norðurlöndunum og því förum við hana. Umtalsverð vinna hefur átt sér stað, bæði með þeirri nefnd sem var skipuð af hæstv. þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssyni, þar sem þessi leið var m.a. nefnd, og svo hefur fjölmiðlanefnd unnið líka heilmikið að gerð þessa frumvarps. Ef þetta getur virkað annars staðar á Norðurlöndunum tel ég allar líkur á að þetta geti virkað hér.

Varðandi það hvort við séum að setja alla fjölmiðla í ákveðið form með þeim skilyrðum sem við erum búin að setja upp verður tíminn að leiða það í ljós en þetta er sú lausn og það tækifæri sem við sjáum helst koma til greina til að styðja við íslenskan fjölmiðlamarkað. Við höfum horft á það sem hefur verið að gerast annars staðar, eins og til að mynda í Frakklandi og á Spáni þar sem þrengt var að auglýsingatekjum ríkisfjölmiðilsins. Þar kom í ljós að tekjurnar fóru ekki beint til þeirra einkareknu fjölmiðla sem voru til staðar en þannig átti að reyna að styrkja þá. Auglýsingatekjurnar fóru á stóru efnisveiturnar vegna þess að þar eru flestir þessa dagana.