150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[22:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fram að þessu frumvarpi hefur stuðningur við einkarekna fjölmiðla á Íslandi ekki verið neinn en hann hefur verið umtalsverður annars staðar á Norðurlöndunum. Við höfum verið í allt annarri stöðu, bara svo ég ítreki það. Varðandi það sem fram kemur í máli hv. þingmanns um það hvernig við miðlum efni þessa dagana þori ég að fullyrða að aldrei í mannkynssögunni hefur verið jafn mikið í boði af efni alls staðar í gegnum stórar efnisveitur og aðgengi að fræðslu og svo mörgu. Það sem við horfum svolítið mikið til er líka að huga að tungumálinu okkar sem skiptir verulegu máli. Eitt af því sem við sjáum er að blaðalestur ungs fólks hefur minnkað alveg gríðarlega á síðustu tíu árum. Auðvitað les unga fólkið okkar líka á netinu en framboðið er ekki eins mikið á íslensku og áður var vegna þess að unga fólkið okkar hefur, sem er líka alveg stórkostlegt, aðgengi að öllu öðru efni í gegnum stórar efnisveitur.