150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[22:39]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það er líklega best að byrja á þeirri staðhæfingu að rekstrarstaða einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hafi ekki verið jafn slæm og nú í þau tæplega 40 árum sem eru liðin frá því að einokun ríkisins á ljósvakamiðlum var afnumin. Staðan hefur versnað hratt núna á allra síðustu árum og jafnvel misserum.

Þetta frumvarp sem hér er til 1. umr. felur í sér viðurkenningu á þessari staðreynd og er viðleitni til að bregðast við stöðunni — þótt í smáu sé, kunna margir að segja. En það má alveg hrósa hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir viðleitni og viljann til þess að bregðast með einhverjum hætti við þessari afleitu stöðu. Efnislega er þetta frumvarp að mínu viti að mörgu leyti ágætt. Þó eru nokkur atriði sem þurfa nánari athugun og verður fjallað um í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þegar þar að kemur. Það á kannski ekki síst við um þann greinarmun sem þarf að gera á almennum fréttamiðlum annars vegar og þeim sem eru eiginlega nær því að vera bloggsíður hins vegar, þ.e. fyrst og fremst vettvangur fyrir skoðanir þeirra sem þær eiga og reka og eiga ekki mikið skylt við almenna fréttaþjónustu eins og tilgreint er í frumvarpinu. Það verður kannski erfitt að draga slíka línu en hana verður með einhverjum hætti að draga og finna einhverja mælikvarða og viðmiðanir sem eru rökréttar og skynsamlegar.

Megingallinn eða vandinn við þetta mál allt saman er hins vegar það sem ekki er að finna í frumvarpinu og ekki er lagt fram samhliða því. Það er nefnilega þegar allt kemur til alls fullkomlega órökrétt og jafnvel fánýtt að ræða um rekstrarstöðu einkarekinna fjölmiðla í þessu samhengi án þess að fjalla samhliða um stöðu Ríkisútvarpsins. Ástæðan er m.a. sú að þeim fer stöðugt fækkandi sem eru reiðubúnir til að greiða fyrir áskrift að fjölmiðlum. Það er ekki íslenskt fyrirbæri heldur alþjóðlegt — nema náttúrlega þeir fjölmiðlar sem eru þannig í stakk búnir, eins og ríkisreknir fjölmiðlar á Norðurlöndunum og víðar, í Bretlandi og Vesturlöndum, hér í Vestur-Evrópu og eins og í Ríkisútvarpinu þar sem menn eru beinlínis neyddir til að borga þetta. Þannig hefur áskrifendum miðla á borð við Stöð 2 og Morgunblaðið sem fyrrum höfðu stærstan hluta tekna sinna af frjálsum áskriftum, frjálsum greiðendum, snarfækkað frá því sem mest var. Mér er t.d. til efs að áskrifendur Stöðvar 2 núna séu meira en helmingur af því sem þeir voru þegar þeir voru flestir. Nú þekki ég ekki tölurnar hjá Morgunblaðinu en ég gæti best trúað að þær væru ekkert ósvipaðar, áskrifendur væru innan við helmingur þess sem best gerðist.

Þetta hefur auðvitað í för með sér að auglýsingatekjurnar eru orðnar miklu stærri hluti af heildartekjum þessara fjölmiðla en áður var. Hér stendur hnífurinn í kúnni, eiginlega í bókstaflegum skilningi. Fyrirferð ríkisins á þessum markaði verður æ óeðlilegri með hverju árinu sem líður og þeim breytingum sem eru að verða á fjölmiðlum núna þessi árin. Ef við tökum allan auglýsingamarkaðinn á Íslandi í heild getum við gróft sagt að hann sé einhvers staðar nálægt því að vera 10 milljarðar kr., íslenski hluti hans, þ.e. þær tekjur sem íslenskir miðlar hafa af auglýsingum á Íslandi. Af þessari upphæð, 10 milljörðum, hefur Ríkisútvarpið u.þ.b. 20% af heildinni, milli 40 og 50% af því sem kemur í hlut ljósvakamiðla. Hartnær helmingur af auglýsingum í útvarpi og sjónvarpi á Íslandi, af því fé sem varið er til auglýsinga, kemur í hlut Ríkisútvarpsins. Þegar við sjáum hlutdeild RÚV, að heildartekjur RÚV af auglýsingum losa 2 milljarða, þá sjáum við til samanburðar þær 400 milljónir sem samkvæmt frumvarpinu á að nota til að styðja einkarekna fjölmiðla.

Þá er ég komin að kjarna málsins. Það er afar erfitt, svo ekki sé sterkara til orða tekið, að fallast á beina ríkisaðstoð við einkarekna fjölmiðla án þess að ríkið víki fyrst eða a.m.k. samhliða af þeim markaði sem er helsta tekjulind þessara sömu einkareknu fjölmiðla. Það má auðvitað gera með ýmsum hætti, í áföngum ef svo ber undir. Það mætti líka gera það, a.m.k. fræðilega séð, með þeim hætti að Ríkisútvarpið tapaði í engu á þeirri breytingu, ef pólitískur vilji lýtur að því. Fyrsti áfanginn gæti t.d. sem best verið jafngildi þeirrar upphæðar sem ætluð er í beina ríkisaðstoð samkvæmt frumvarpinu, þ.e. 400 milljónir, sem þýddi þá í fyrstu lotu að þakið á auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins væri sett á 1.600 millj. kr. á ári en losaði ekki 2 milljarða eins og það gerir í dag.

Ég vil í lok máls míns beina því til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að undirbúa nú þegar skref í þessa átt, annað tveggja eða hvort tveggja, með þeim þjónustusamningi sem nú er í smíðum. Ef það dugar ekki til án lagabreytingar gæti hún komið til líka því að þá er hægt að taka á vanda einkarekinna fjölmiðla á samræmdan og heildstæðan hátt en líka rökrétt og vitrænt.