150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[22:53]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé ekkert sérstaklega erfitt að svara þessari síðustu spurningu hv. þingmanns. Við vitum þetta u.þ.b., þetta eru svona nálganir sem ég er nú að fara með eftir minni frekar en að hafa flett þessu upp akkúrat núna. Ætli skiptingin á því sem myndi losna á íslenskum auglýsingamarkaði — og nú er ég ekki að tala um að þetta gerðist allt á einu bretti, það mætti hugsa sér það í fjórum fjórðungsáföngum eða eitthvað svoleiðis — og ætli skiptingin á milli þess sem rynni í hlut innlendra fjölmiðla við hliðrun á RÚV út af þessum markaði væri ekki bara í svipuðu hlutfalli og þetta er núna? Menn giska á að auglýsingar íslenskra fyrirtækja á íslenskum markaði skiptist hreinlega einhvers staðar á bilinu 85–90% til íslenskra miðla og 10–15% inn á útlendar efnisveitur. Ákveðin týpa af auglýsingum, dýru, stóru auglýsingarnar sem bæði eru dýrar í framleiðslu og dýrar í birtingu og eru alltaf settar á kjörtíma, auglýsingar stóru íslensku fyrirtækjanna sem eru með svokallaðar „prestige“-auglýsingar, ímyndarauglýsingar og annað slíkt, fara ekki á samfélagsmiðla. Þær halda áfram í, ef ég má sletta, íslenskum „mainstream“ fjölmiðlum.

Það var misskilningur ef hv. þingmaður hefur skilið orð mín svoleiðis að ég væri að gera upp huglægt um efni styrkhæfra fjölmiðla í þessu samhengi. Ég er að tala um, alveg eins og í frumvarpinu sjálfu, hlutlæga mælikvarða þar sem hægt er að segja: Þetta er bloggsíða, þetta er vettvangur skoðana þeirra sem þar eru. Hitt er aftur á móti fréttamiðill. Það verður hvort sem er, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, að draga einhverja línu á milli þess sem er bara skoðanavettvangur og þess sem er fréttamiðill. Það verður að nálgast það með (Forseti hringir.) einhverjum hlutlægum hætti. Öðruvísi er náttúrlega ekki hægt að framkvæma þennan stuðning við einkarekna fjölmiðla.

(Forseti (BHar): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska og (PállM: Afsakið.) einkar mikilvægt að hafa það í heiðri, sérstaklega þegar við ræðum frumvarp um RÚV.)