150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[23:03]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með tilvísun í stjórnarsáttmálann er það alveg rétt að þar er talað um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Það stendur hins vegar ekkert í stjórnarsáttmálanum um að sá stuðningur við einkarekna fjölmiðla geti ekki einmitt falist í því að RÚV víki af auglýsingamarkaði. Það er ein aðferð til stuðnings við einkarekna fjölmiðla.

Það var ákveðin þversögn hjá hv. þingmanni hér áðan. Breytan á fjölmiðlamarkaði á öllum hinum Norðurlöndunum er sú að þar er ríkismiðillinn ekki á auglýsingamarkaði. (KÓP: Samt þarf að styðja.) Samt þarf að styðja fjölmiðlun. Við myndum sjálfsagt þurfa að styðja einkarekna fjölmiðla út af þessum breyttu aðstæðum á allra síðustu árum þó að við rýmkuðum líka til fyrir þeim á auglýsingamarkaði. En það myndi gera þörfina á beinum ríkisstuðningi minni en ella ef á sama tíma yrði dregið úr þessari ofboðslegu nærveru ríkisins á auglýsingamarkaði hjá fjölmiðlum. Hún er fáheyrð. Hún finnst hvergi.