150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[23:35]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál sem fjallar um fjölmiðlana í landinu og þá helst hvernig styrkja megi þá einkareknu. Með því að hafa öfluga einkarekna miðla tryggjum við fjölbreytnina og síðan aðhaldið við ríkisrekna fjölmiðilinn og svo bara við stjórnmálin og annað slíkt, þannig að þetta er gríðarlega mikilvægt. En það eru mörg sjónarmið í þessu máli og ég vil byrja á að segja að auðvitað er maður talsmaður þess að starfsumhverfi fyrirtækja hér á landi feli almennt í sér litlar hindranir, lágar álögur, að rekstrarumhverfi sé gott þannig að fyrirtækjum, sama í hvaða starfsemi það er, hvort sem eru fjölmiðlar eða annars konar atvinnustarfsemi, geti gengið vel, að almennt séu skattar lágir og aðrar álögur.

Í þessu máli erum við að ræða um að við erum fámenn þjóð með einn risastóran ríkisfjölmiðil sem er í samkeppni við aðra og þess vegna er umhverfið enn erfiðara. Því erum við að ræða hér hvers lags ráðstöfun þeirra fjármuna sem við höfum gert ráð fyrir í fjárlögum næsta árs — við höfum tekið frá 400 milljónir — sé best til þess fallin að efla einkarekna fjölmiðla og bregðast við þeirri stöðu sem við erum í, eins og ég sagði áðan, í fámennu landi með risastóran samkeppnisaðila sem er Ríkisútvarpið. Þá held ég að það sé heillavænlegast að nýta þá fjármuni til að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðlanna. Það má gera það á nokkra vegu. Fyrst og fremst er spurning hvernig við ráðstöfum þessum 400 milljónum. Ég held að það eigi að vera í formi ívilnana, sem sagt lægri skatta og álagna á þessi fyrirtæki, fremur en í beinum styrkjum þannig að þetta sé svolítið almennt og gagnsætt og það þurfi ekki að vera undir hælinn lagt eða háð velvilja fjölmiðlanefndar eða annarra hvernig afkomu háttar. Ég held að það sé alltaf best.

Ég held að við þurfum líka í þessu máli um hvernig við styrkjum umhverfi einkarekinna fjölmiðla að skoða heildarmyndina. Þá langar mig aðeins að tala um hlutverk Ríkisútvarpsins. Ég held að eftir því sem tæknin hefur þróast, samfélagið þróast, fjölmiðlaheimurinn þróast og allt þróast hafi grunnhlutverkið orðið öðruvísi. Ég held að markmiðin með hlutverki Ríkisútvarpsins eigi öll rétt á sér, að tryggja að menningin sé til staðar, tryggja íslenska tungu, tryggja öryggi, tryggja visst erlent efni sem hefur visst menningarlegt gildi og þarf líka að birtast hér. Þetta er allt gott og gilt. En getum við náð þessum markmiðum fram á annan hátt? Gætum við t.d. fært hlutverk Ríkisútvarpsins yfir í að vera samkeppnissjóður þannig að þeir fjármunir sem eru notaðir í dag til reksturs Ríkisútvarpsins færu í minna mæli í að Ríkisútvarpið sjálft sé með línulega dagskrá og framleiði þætti heldur hafi í gegnum samkeppnissjóð umsjón með að útdeila fjármunum í þau verkefni sem hinn frjálsi markaður sinnir ekki? Til menningar sem frjáls markaður lyftir ekki upp, í þær íþróttir sem hinn frjálsi markaður sýnir ekki frá? Þá gætum við verið að styrkja aðra efnisframleiðendur með aðgangi að svona samkeppnissjóði sem myndi efla þá til að gera fjölbreyttara efni. Við þekkjum alveg að þegar einkaframtakið fær að njóta sín finnur það aðrar leiðir og hagkvæmari til þess að framleiða efnið og leggur oft mikið á sig, sem kannski gerist síður í ríkisreknu umhverfi þar sem öll laun og allur kostnaður er greiddur í topp.

Þetta getur skipt miklu máli. Þess vegna held ég að við eigum að horfa frekar til þess að breyta Ríkisútvarpinu meira í samkeppnissjóð og leggja áherslu á að þar sé svokölluð efnisveita. Gera það að skilyrði. Byrja á að setja Gullkistuna inn í efnisveitur og við höfum gert lagabreytingar hjá Alþingi til að fá Gullkistuna þangað og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt til að viðhalda menningararfinum og ekki síst íslenskri tungu að öll Gullkista Ríkisútvarpsins sé aðgengileg almenningi í gegnum efnisveitu og um leið að allt það efni sem er framleitt með styrkjum úr samkeppnissjóðnum skili sér innan tiltekins tíma í þessa efnisveitu.

Það er ekki heldur hægt að sleppa taki á málinu án þess að tala um auglýsingarnar og RÚV á auglýsingamarkaði. Ég held að ef við færum meira yfir í það sem ég var að fara yfir áðan, að breyta RÚV í samkeppnissjóð þannig að einkareknu miðlarnir geti farið að framleiða efni meira sjálfir, muni þeir að sjálfsögðu fá meira áhorf og breiðari áhorfendahóp. Þá mun verða auðveldara fyrir þá að selja auglýsingar. Um leið myndi hlutdeild Ríkisútvarpsins dragast saman á auglýsingamarkaði. En á meðan við erum með óbreytt fyrirkomulag held ég að erfitt sé fyrir mig segja að RÚV eigi að fara algerlega af auglýsingamarkaði því að það yrði viss skerðing á prentfrelsinu sem ég tel að sé mikilvægt líka. Þarna þurfum við að finna einhvern milliveg og þá þarf líka að svara þeirri spurningu hvaða áhrif það hafi t.d. á íþróttahreyfingarnar í landinu og þær íþróttir sem frjálsi markaðurinn sendir ekki mikið beinar útsendingar frá í dag. Ríkisútvarpið hefur getað sýnt beint frá fleiri íþróttaviðburðum því að það hefur getað selt auglýsingar og þannig kostað útsendinguna. Það þarf að tryggja að þetta sé til staðar eða að einkareknu miðlarnir fái aukin tækifæri til að sinna þessu og eins í kringum landsleiki og annað, þar hafa sérsamböndin náð að fá meiri auglýsingatekjur ef það er langur útsendingartími og hægt að selja auglýsingar á honum. Þetta er eitt af því sem þarf að hafa í huga, hvernig íþróttahreyfingin spilar með þessum auglýsingamarkaði og einnig prentfrelsið.

Ég tel samt mikilvægast að koma einkareknu miðlunum í þá stöðu að þeir fái mun meira af þessari köku. Það er ekki bara að RÚV dragi sig saman á auglýsingamarkaðnum og minnki umsvifin þar heldur verður það að fá tækifæri til að sýna margt frá þeim sem framleiða efni eins og t.d. Landann. Það er fullt af mjög góðu efni á Ríkisútvarpinu og ég vil segja það hér að með síðasta þjónustusamningi Ríkisútvarpsins lagaðist þetta mikið. Ríkisútvarpið fór að kaupa meira af leiknu efni og bjóða út, fór að framleiða minna innan húss. Ég tel að það hafi verið góð þróun. En ég er að tala um að taka þetta lengra og fara alla leið í samkeppnissjóð þannig að efni sé framleitt og sýnt utan húss og komi svo og skili sér inn í þessa efnisveitu. Þannig erum við líka að horfa til framtíðar. Við erum að þróast. Maður tekur eftir því að það eru fleiri, sérstaklega unga kynslóðin, sem horfa aldrei á línulega dagskrá. Það er bara stundum erfitt að bjóða börnunum sínum upp á það. Þau vita ekki hvað það er. Við þurfum að bregðast svolítið við breyttum tíðaranda.

Ég held að við getum tekið þetta allt saman, endurskoðað hlutverk Ríkisútvarpsins, þau markmið sem það var upphaflega sett af stað með, hvernig sé hægt að ná þeim á sem árangursríkastan hátt þannig að það styrki hinn frjálsa markað um leið. Þar vil ég nefna eitt. Á meðan við erum með Ríkisútvarpið svona vel fjármagnað, eins og ég vil segja að það sé í dag og með yfirburðastöðu, er þá ekki hægt að gera ríkari kröfur um skyldur þess? T.d. að halda talsetningar- og textunarkröfunni á Ríkisútvarpinu en aflétta henni af einkareknu miðlunum þannig að fólk geti alltaf fengið allt textað sem er sýnt á Ríkisútvarpinu fyrir almannafé en annars sé það val hinna fjölmiðlanna hvort þeir hafi efnið textað eða ekki. Þetta er eitt af því sem getur liðkað fyrir rekstri þeirra í þeirri samkeppni sem þeir eru komnir í við alþjóðlegar efnisveitur sem eru starfræktar á EES-svæðinu og eru fullkomlega aðgengilegar hér en búa ekki við sömu kröfur.

Þetta er svona það sem ég vildi helst koma inn á í þessari stuttu ræðu um annars stórt mál, að við skulum ekki festa okkur bara í því að málið leysist með því að ríkisstyrkja fjölmiðlana og auka eftirlitið í gegnum fjölmiðlanefnd um leið og við tækjum svo Ríkisútvarpið alveg af auglýsingamarkaði. Við höfum marga möguleika, það þarf að hugsa aðeins út fyrir boxið um hvernig við getum látið markmiðin spila öll saman, haft hér öfluga, frjálsa fjölmiðla, öfluga menningu, sýnt frá sem fjölbreyttustum íþróttaviðburðum, viðhaldið íslenskri tungu og prentfrelsinu þannig að það sé hægt að koma auglýsingum og öðru á framfæri.

Ég vona bara að Alþingi vinni þetta mál vel, fái margar umsagnir og gefi sér góðan tíma í að fara yfir það mál og finna góða lausn sem tryggir sterka og öfluga fjölmiðlun í íslensku samfélagi.