150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[00:50]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Ég verð að segja að mér finnst þetta svolítið sérstök umræða. Ég skynja alveg af umræðunni í hvaða flokki hver er. Ég held að við getum samt öll verið sammála um að staða einkamiðla er ekki nógu góð og að öll viljum við gera eitthvað til þess að styrkja stöðu þeirra. Þegar ég sé hins vegar frumvarp sem er ætlað að styrkja stöðu þeirra verð ég að vera nokkuð viss, ef ég á að samþykkja það, um að það sé til þess fallið. Fljótt á litið, eins og það lítur út núna, er ég nokkuð viss um að við óbreytt ástand muni þetta frumvarp litlu eða engu breyta. Það er áhyggjuefni mitt.

Ég ætla ekki að endurtaka mikið það sem menn hafa sagt á undan mér en ég undrast samt mjög þá röksemd í þessari umræðu að ríkisútvarp sem fær 5 milljarða frá skattgreiðendum, er yfirgnæfandi á auglýsingamarkaði og er í samkeppni þar hafi ekki áhrif á einkamiðla, að það sé óskylt mál sem tala eigi um síðar. Það eru gjörsamlega fráleit rök í mínum huga. Þetta verður ekki slitið í sundur. Það er ekki hægt að slíta þetta í sundur og í því samhengi þýðir ekki að benda á að hér sé verið að styrkja stjórnmálaflokka, nýsköpunarfyrirtæki eða bókaútgáfu. Í nýsköpunarfyrirtækjum og bókaútgáfu er ekkert risaríkisfyrirtæki að keppa. Það er engin ríkisbókaútgáfa, það er ekkert ríkisnýsköpunarfyrirtæki. Það er ekki þannig (Gripið fram í.) og það er ekki hægt að undanskilja Ríkisútvarpið í þessari umræðu um möguleika á einkamiðlunum, að umhverfi þeirra sé betra og samkeppnisumhverfið eðlilegt. Við verðum að taka þetta saman. Ég hefði auðvitað viljað sjá þetta þannig að við hefðum ákveðið áður en þetta frumvarp kom fram að fara yfir hlutverk, skipulag og skyldur Ríkisútvarpsins, taka það af auglýsingamarkaði eða takmarka það a.m.k. mjög og velta svo fyrir okkur hvað hægt væri að gera til að styrkja enn frekar eða treysta í sessi eðlilegt umhverfi fyrir einkamiðla. Þessir miðlar eru í samkeppni við risafyrirtæki og það verður ekki slitið í sundur.

Svo er önnur umræða sem ég hef alltaf velt fyrir mér og er enn að reyna að skilja, af hverju svona mikil andstaða er við það að endurskipuleggja og yfirfara hlutverk og skyldur RÚV. Af hverju má aldrei taka þá umræðu að aðrir geti sinnt þessu menningarhlutverki? Ég er ekki að tala um að draga úr stuðningi ríkisins en einhverjir aðrir en ríkisstarfsmenn geta sinnt þessu menningarlega og sögulega hlutverki og íslenskri tungu. Af hverju þurfa það að vera ríkisstarfsmenn? Ég hef mikið velt þessu fyrir mér. Ég er ekki að mæla með því að RÚV hverfi sisona. Ég held að öll þessi ríkisfjölmiðlafyrirtæki muni hverfa á næstu áratugum. Á endanum munu skattgreiðendur ekki samþykkja að greiða milljarða í fjölmiðla af þessu tagi. Menn munu á endanum hafna því en það mun taka tíma. Meira að segja í Danmörku eru menn farnir að draga mjög mikið úr umfangi Danmarks Radio og eru rétt í byrjunarfasa þar vegna þess að skattgreiðendur segja: Hingað og ekki lengra. Ég held líka að það sé kominn tími til fyrir skattgreiðendur á Íslandi að segja: Hingað og ekki lengra. Við viljum hafa fjölmiðil í landinu sem sinnir skyldum. Þess vegna finnst mér samkeppnissjóður ekkert mjög vitlaus hugmynd, að ríkið styrki og menn keppi um að miðla efni sem við teljum nauðsynlegt fyrir íslenskt samfélag. Það er þó önnur umræða (Gripið fram í.) — ég á níu mínútur eftir, hv. þingmaður, og ætla að eyða þeim í að tala um flokkinn VG [Hlátur í þingsal.] sem er alveg ótrúlegt afturhald og heldur að íslensk menning og tunga muni hverfa ef RÚV helst ekki í núverandi mynd. Það er auðvitað ekki þannig og ég held að jafnvel menning muni batna ef aðrir en ríkisstarfsmenn miðla því efni.

Af því að ég ætla að vera stuttorður [Hlátur í þingsal.] segi ég bara að ég hef miklar áhyggjur af einkamiðlum. Ég hef enn meiri áhyggjur af RÚV. Þetta verður að taka saman og við erum að byrja á öfugum enda. Ég hefði viljað sjá hér frumvarp um endurskipulagningu RÚV og hlutverk þess, taka það af auglýsingamarkaði, sjá svo til hvort við þyrftum að gera meira til að tryggja eðlilegt umhverfi fyrir einkamiðla. En það vilja menn ekki gera, það á bara að halda þessu áfram, búa til ný útgjöld fyrir skattgreiðendur án þess að vita nokkuð hvort það beri árangur. Ég er mjög ósáttur við þá leið og þess vegna stendur þetta afskaplega mikið í mér. Ég trúi því þó að verði þetta frumvarp að lögum fari menn strax í að taka RÚV af samkeppnismarkaði. Ég verð bara að trúa því að menn geri það. Ég óttast, miðað við það hvernig þingheimur er samsettur, að menn muni aldrei samþykkja neina breytingu á RÚV og þá sitjum við uppi með útgjöld upp á hundruð milljóna til einkamiðla. Eftir árið munum við skoða stöðu einkamiðla og hún mun verða óbreytt. Eini munurinn er sá að skattgreiðendur niðurgreiða tapið að hluta. Það er sá veruleiki sem ég óttast.

Svo væri mjög gott að hæstv. félags- og barnamálaráðherra lærði að hvísla. [Hlátur í þingsal.] Það er mikilvægt að læra að hvísla því að annars verða menn hleraðir. [Hlátur í þingsal.] (Félmrh.: Hvað sagðirðu?) Ég fipaðist aðeins í ræðunni og held að ég tali núna bara um félagsmálaráðherra. Ég veit ekki hvað ég á að segja. (Gripið fram í: Hann auglýsir mikið þarna.) Félagsmálaráðherra? (Gripið fram í.) Já, ég ætlaði að tala um VG. Ég hef tjáð mig heilmikið um þetta frumvarp í fjölmiðlum, (Gripið fram í.) bæði í frjálsum og á RÚV, [Hlátur í þingsal.] og ég kemst alltaf að sömu niðurstöðunni. (Forseti hringir.)

Er tíminn búinn?

(Forseti (GBr): Forseti beinir því til hv. þingmanns að halda sig við efnið og flytja ræðu sína. Tíminn líður.)

Takk. Ég var að hugsa um að nota síðustu mínúturnar í hljóðlátu sorgarferli, hæstv. forseti, yfir þessu frumvarpi. [Hlátur í þingsal.] Ég þykist vita að við látum skattgreiðendur enn einu sinni borga stórfé og fá ekkert í staðinn nema hreinar hörmungar. Við erum vön því þannig að ég vonast til þess og treysti á hæstv. menntamálaráðherra að þegar þessum ósköpum er lokið [Hlátur í þingsal.] komi fram frumvarp þar sem menn tryggja að ekki verði skökk samkeppni á fjölmiðlamarkaði, það verði eðlilegt umhverfi. Ef ég trúi að það gerist dreg ég kannski mjög úr leiðindum þegar nær dregur. [Hlátur í þingsal.]