150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[01:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um starfsmenn RÚV gilda ekki lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þeir eru ekki ríkisstarfsmenn í þeim skilningi en ríkið á þetta.

Ég hef alveg sömu áhyggjur og hv. þingmaður af því að þetta frumvarp sé bara byrjunin og að breytingin muni ekki gera einkamiðlunum gagn þegar eitt ár eða tvö verða liðin. Þetta dugar engum og mun engu breyta. Við erum að setja upp kerfi þar sem þrír menn í nefnd fara yfir umsóknir og deila út fé. Þetta er eins og þegar ég var barn, þá ákváðu einhverjir menn á vegum ríkisins hverjir mættu flytja inn bíl. Við erum komin þangað. Og það er 2019, er það ekki ? Svo er fullt af fólki að segja að maður eigi að komast í nútímann. Við erum alltaf að fara eitthvað langt aftur. Það er enginn nútími að ríkisvaldið eigi og reki fjölmiðil, það er bara fortíð. Engum dytti í hug að gera þetta núna. (Gripið fram í: Jú.) Nei, ekki nokkrum manni. Þetta er fornaldardæmi. Ég get alveg skilið að við séum samt að styrkja eitthvert menningarlegt efni en við þurfum ekki að gera það með því að reka sjálf og eiga fjölmiðilinn.

Ég veit að ég kemst ekkert áfram með þetta því að sumir halda að það verði bara að vera svona. Ég nenni ekki einu sinni að tala um það en þetta er fornaldarlegt. Þegar tæknin er orðin eins og hún er, allir þessir miðlar úti um allt og hver er orðinn sinn eigin fjölmiðill förum við í eitthvert svona gamalt kerfi um að einhverjir kallar eða einhver nefnd ákveði hver fái hvað. Þetta er fullkomlega galið, hv. þingmaður.