150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[01:35]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, þ.e. stuðning við öflun og miðlun frétta og fréttatengds efnis o.fl. Frumvarpið gengur út á stuðning við einkarekna fjölmiðla. Af hverju er það komið hingað í sal Alþingis? Einfaldlega vegna þess að staða einkarekinna fjölmiðla er afskaplega slæm og hefur reyndar lengi verið. Staða þeirra hefur þó farið versnandi, sérstaklega undanfarin ár, þar sem sífellt fleiri auglýsendur ákveða að nota fremur netið og þá rennur auglýsingaféð jafnvel til erlendra efnisveitna. Þetta hefur valdið minni fjölmiðlum og mörgum íslenskum fjölmiðlum margháttuðum vanda.

Herra forseti. Það er enginn vafi á því að við viljum öll hafa fjölbreytta flóru einkarekinna fjölmiðla. Það tryggir, að sögn, fjölbreytt skoðanaskipti og eflir þar af leiðandi lýðræðið. Tekjur prentmiðla, blaða og tímarita, hafa dregist mikið saman undanfarin ár og það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að þessar tekjur hafi dregist saman um nálega helming á núvirði síðastliðin 13 ár, frá 2006, reiknað á föstu verðlagi. Því er þessi vandi okkur öllum augljós. Markmiðið með þessu frumvarpi er því að styrkja einkarekna fjölmiðlun, fréttaflutning, fréttatengt efni og innlenda dagskrárgerð. Fréttamiðlar á landsbyggðinni hafa átt sérlega erfitt uppdráttar á undanförnum árum af framangreindum orsökum. Ég man þá tíð, herra forseti, þegar ég bjó í Eyjum að þar var héraðsfréttamiðill sem heitir Eyjafréttir gefinn út vikulega og var stútfullur af alls kyns efni, fréttum og frásögnum, viðtölum og fleiru, en í dag er þessi sami miðill gefinn út mánaðarlega. Samkvæmt þessu frumvarpi, herra forseti, mun sá miðill ekki uppfylla, að óbreyttu, skilyrði frumvarpsins því að gerð er krafa um að útgáfudagar megi ekki vera færri en 48 á ári. Margir þessir héraðsfréttamiðlar, þessir smærri, eru ekki í færum að fá styrki í gegnum þær tillögur sem koma fram í þessu frumvarpi. Þannig er, held ég, enginn á móti því að efla einkarekna fjölmiðla heldur eru einungis skiptar skoðanir á því hvernig það skuli gert.

Herra forseti. Hér er farin sú leið að útdeila 400 milljónum til þessara miðla árlega miðað við forsendur frumvarpsins. Ég held í sannleika sagt að það geri lítið fyrir þessa starfsemi í heild sinni. Nokkrir miðlar sem uppfylla þessi skilyrði munu gleypa þetta fé. Þeir hafa aflið til að uppfylla þau skilyrði sem þarna eru sett. Eitt er að utan um þessa lágu fjárhæð er útbúið heljarinnar kerfi, úthlutunarnefnd með þremur hálaunamönnum og flóknu umsóknarkerfi. Umsækjendur skulu skila inn allra handa bókhaldsgögnum og dagskráryfirlitum, vottuðum. Það er ekki nóg með að nefndin eigi að vera mönnuð þessum þremur nefndarmönnum heldur geta þeir einnig leitað sérfræðiálits valinkunnra sérfræðinga á þessu sviði til að gefa þeim ráð þegar umsóknir eru annars vegar. Ég sé fyrir mér, herra forseti, að máttminni fjölmiðlarnir, t.d. héraðsfréttamiðlarnir, verði í stökustu vandræðum með að uppfylla þessar kröfur því að skrifstofuvinnan er töluverð af því sem ég hef séð í þessu frumvarpi. Það sem ég hef verið að lesa hér er að það eru gerðar miklar kröfur um framlagningu gagna og tímafresti og bókhaldsgögn og alls kyns atriði. Það þarf að votta þetta í bak og fyrir, sem er svo sem ekkert óeðlilegt. Það er ekkert óeðlilegt að menn taki ekki við einhverjum innkaupapokum með gögnum í. Úthlutunarnefndin getur leitað álits sérfróðra aðila, eins og ég sagði. Bara vegna þessa er frumvarpið afleitt, því að það eykur við báknið og við í Miðflokknum höfum talað mikið gegn bákninu — eins og fleiri reyndar. Þarna er verið að koma á fót nýrri nefnd, nýrri stofnun, með starfsmönnum, skrifstofum, opnunartíma, bókhaldi, gagnasafni og alls kyns öðru sem tilheyrir slíku apparati — eða eigum við frekar að segja stofnun?

Ef við snúum okkur aðeins að Ríkisútvarpinu sem er í harðri samkeppni við alla aðra innlenda miðla á vettvangi sjónvarps, útvarps og vefmiðla — beinni samkeppni. Þangað renna árlega, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, um 5 milljarðar af almannafé á hverju ári og einhvers staðar tekur RÚV til sín hátt í 2 milljarða í auglýsingatekjur á hverju ári. Þetta er þó ekki nóg. Sífellt fáum við að heyra um rekstrarvanda þessarar stofnunar. Einhverju sinni greip stofnunin til þess ráðs að selja lóðir hringinn í kringum útvarpshúsið til að laga rekstrarstöðuna því að ekki má fyrir nokkurn mun draga saman þar nokkur segl. Menn segja, herra forseti, Ríkisútvarpinu til varnar, að það gegni svo miklu öryggishlutverki. Hvernig var það í óveðrinu í síðustu viku? Ríkisútvarpið hafði svo algerlega gleymt meintu almannavarnahlutverki sínu sem svo mjög er hampað að í fréttaflutningi var iðulega vísað til upplýsinga á vefnum, sem víðast hvar á óveðurssvæðunum sjálfum lá niðri. Notendur, eins og við höfum heyrt um, t.d. í Húnavatnssýslum, hafa lýst angist sinni þegar þeir, einungis með rafhlöðuútvarpstæki í gangi, hlustuðu tímunum saman á útsendingar almannavarnastofnunarinnar sem flutti engar fréttir en vísaði ítrekað á vefinn, sem, eins og ég sagði fyrr, náðist hvergi á svæðinu. Fólkið sem beið í ófærð og rafmagnsleysi og hitaleysi hafði því ekki minnstu hugmynd um hvert ástandið væri í næsta nágrenni við sig, ekki hugmynd um það. Þannig var fréttaflutningurinn. Nei, herra forseti. Þarna féll Ríkisútvarpið á prófinu í þessu altalaða hlutverki sínu, að vera öryggisventill í almannavarnaástandi.

Herra forseti. Mér hugnast fremur aðrar leiðir til að styrkja einkarekna fjölmiðla. Til þess eru margar leiðir, t.d. er sú einfaldasta að byrja kannski á því að fella niður virðisaukaskatt á áskriftir tímarita og blaða sem bera 11% virðisauka, að því er mér skilst í dag; t.d. að byrja á því að fella hann niður. Það er einfalt. Það þarf ekki að stofna neina stofnun utan um það. Það er bara að fella þann virðisauka niður. Það er kannski of einfalt? Það er hálfgerð tímaskekkja að mínu mati, herra forseti, að útbúa svona ríkisstyrkjavæðingu í fjölmiðlun. Mér hugnast það ekki. Ég er hræddur um að í fyrsta lagi verði þetta bákn, þ.e. styrkjakerfið. Hvað kostar t.d. að halda úti einni skrifstofu með þremur nefndarmönnum? Það er kannski 10% eða 30% af þessari upphæð, þessum 400 milljónum. Ég hef nú séð tölur sem koma mörgum til að klóra sér í hausnum yfir launum ýmissa opinberra starfsmanna sem eru í svona íhlaupastörfum. Ég hef séð þær. Ég gæti grafið þær upp ef einhver vilji væri til þess. Ég gæti grafið upp háar tölur yfir þóknanir og laun þeirra sem eru komnir í slík störf á vegum hins opinbera. Ég man ekki hvað skýrslan kostaði sem við vorum að lesa um daginn, EES-skýrslan. Hún er ansi falleg og þykk, hundrað og eitthvað blaðsíður, ég held að hún hafi kostað tugi milljóna. Ekki voru þessir menn í fullu starfi. Bara svona hugmynd sem mér datt í hug allt í einu.

Hvað kostar að búa til svona bákn utan um þetta? Ég hef áhyggjur af því. Ég held að það séu réttmætar áhyggjur. Ég hef áhyggjur af því að þessar 400 milljónir séu ekki svo stór upphæð þegar til útdeilingar kemur. Ég reikna með að stærstu miðlarnir fái megnið af þessu, þó að þarna sé hámarksupphæð, 50 milljónir til hvers einstaks. Þeir gleypa þetta mjög hratt, svona helftina af þessu. Og í þeirra bókhaldi eru 50 milljónir kannski ekki svo ýkja stór upphæð. Ég hef áhyggjur af minni miðlunum, héraðsfréttablöðum og útvarpi og sjónvarpi úti á landi og þeim sem reka minni miðla. Ég hef áhyggjur af því að þeir muni þá bera fremur skarðan hlut frá borði.

Ég var búinn að fara yfir mest af því sem ég var búinn að hripa hjá mér. Ég hef líka velt fyrir mér 2. gr. í frumvarpinu. Það virðist sem svo að í 2. gr. sé gert ráð fyrir því að ráðherra hafi ýmsar heimildir. Þarna er ég að velta fyrir mér framsali á valdi. Ráðherra hefur þarna heimildir, að því er mér sýnist í 2. gr., til þess að skerða, eins og stendur hér, „hlutfallslega endurgreiðslur [...] [og] veita staðbundnum fjölmiðlum viðbótarendurgreiðslu, [eða setja] nánari skilyrði fyrir endurgreiðslu.“ Þegar ég les þetta velti ég fyrir mér framsalsþættinum í þessu. Þarna virðist sem ráðherra sé falið að hafa svolítið hönd í bagga, ef við getum orðað það svo, með úthlutunum úr þessum sjóði. Er raunhæft að gera ráð fyrir að ráðherra stjórni þessu svona mikið eins og þarna virðist koma fram í 2. gr.? Ég velti líka fyrir mér skilyrðunum fyrir endurgreiðslu á kostnaði. Þetta virðist vera mjög matskennt, eins og kemur fram t.d. í e-lið þar undir.

„Efni sem birtist í fjölmiðli skal vera fjölbreytt og fyrir almenning á Íslandi.“

Hvernig hyggjast menn meta þetta? Fjölbreytt? Hvaða mælistiku ætla menn að leggja á þetta þegar þetta kemur inn á borð hjá nefndinni? Ætla þeir að útiloka einhvern sem er ekki nógu fjölbreyttur? Er þetta algjörlega matskennt?

Svo geri ég að síðustu athugasemd við þessa 48 útgáfudaga á ári, eins og ég nefndi áðan.