150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld.

450. mál
[02:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Með frumvarpi þessu eru lagðar til margvíslegar breytingar. Ég ætla að fjalla nokkuð ítarlega um einstök efnisatriði frumvarpsins en kannski verður ekki farið í efnisatriði í sömu röð og þau koma fyrir í frumvarpinu. Fyrst vil ég nefna ákvæði sem tengjast tvöfaldri refsingu. Í frumvarpinu er lagt til að í lögum um tekjuskatt, lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda verði lögfest ákvæði til bráðabirgða þess efnis að skattyfirvöld skuli ekki bæta álagi á endurákvarðaða skattstofna eða endurákvarðaða skatta ef máli skattaðila vegna þeirra atvika sem eru tilefni endurákvörðunar hefur verið vísað til refsimeðferðar samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga eða samsvarandi ákvæðum laga um virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda. Tillagan byggist ekki á því að talið sé að tilhögun hér á landi varðandi beitingu refsinga vegna skattalagabrota jafnhliða álagsbeitingu skattyfirvalda sé í eðli sínu andstæð lögum. Staðfest er af Hæstarétti að svo er ekki, samanber dóm í máli nr. 283/2016, heldur er tilgangurinn með setningu ákvæðanna sá að hindra að umrædd tilhögun leiði til óvissu vegna fleiri mála en þeirra sem þegar hafa verið tekin til endurákvörðunar með álagsbeitingu skattyfirvalda á meðan gengið er frá þeim varanlegu breytingum og úrbótum sem ákveðnar verða.

Þessi mál hafa sem sagt verið til skoðunar í stjórnkerfinu, breytt fyrirkomulag, og á meðan unnið er að tillögugerð um þau efni tel ég rétt að leggja til við þingið með þessu bráðabirgðaákvæði að þessari tilhögun verði beitt í millitíðinni. Ég á von á tillögum um þetta efni með vorinu sem vonandi eyða þeirri óvissu sem hér er komið inn á um þessi efni.

Næst vil ég nefna að lagt er til að greiðslur til aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi sæti ekki staðgreiðslu af söluhagnaði af íslenskum hlutabréfum og stofnbréfum. Í tvísköttunarsamningum sem gerðir hafa verið við önnur ríki til að koma í veg fyrir tvísköttun tekna er að finna ýmis ákvæði þar sem gefinn er eftir skattlagningarréttur á tekjum sem annars væru skattlagðar hér á landi. Kveði tvísköttunarsamningur á um að erlenda ríkið eigi skattlagningarréttinn er skattaðila eftir atvikum unnt, að uppfylltum skilyrðum, að sækja um undanþágu á afdrætti staðgreiðslu til ríkisskattstjóra. Ljóst er að þetta fyrirkomulag skilar litlum tekjum í ríkissjóð en veldur því að aðilar með takmarkaða skattskyldu hafa af því töluvert óhagræði að eiga viðskipti með íslensk hlutabréf. Skattskylda á framtalsskyldan skattaðila samkvæmt tekjuskattslögum helst óbreytt þrátt fyrir að staðgreiðsluskylda verði ekki lengur fyrir hendi.

Ég vil nefna um þetta atriði að frumvarpsákvæðið sem ég er að fara yfir er takmarkað við íslensk hlutabréf og stofnbréf en ég vil láta þess getið að það kann að vera að nánari skoðun leiði í ljós að ástæða sé til að ganga lengra og ég legg áherslu á vilja minn til að eiga gott samstarf við nefndina til að koma upplýsingum til þingsins um þau efni. Staðgreiðsluskyldan sem hér er verið að fjalla um getur m.a., ef ekki er horft til annarra fjármálagerninga eins og t.d. skuldabréfa, komið í veg fyrir möguleika íslenskra aðila til að fá fjármögnun að utan ef til að mynda til stendur að gefa út skuldabréf sem skráð er á markaði þannig að alþjóðlegum fjárfestum standi til boða að taka þátt í slíku útboði.

Þessi atriði tel ég rétt að skoða nánar þó að frumvarpið gangi ekki lengra en að taka til hlutabréfa og stofnbréfa.

Í þriðja lagi vil ég tala um frádráttarbærni vaxtagjalda vegna blandaðra fjármálagerninga. Í frumvarpinu er lagt til að skattalegri meðhöndlun greiðslna af svokölluðum blönduðum fjármálagerningum verði breytt og kveðið á með skýrari hætti í tekjuskattslögum um að hafi vextir verið greiddir af slíkum gerningum skuli þeir koma til frádráttar. Lagt er til að frádráttur frá skattskyldum tekjum miðist við greidda vexti en ekki reiknaða, áfallna vexti í þeim tilvikum sem skilyrði fjármálagerninga fela í sér heimild fyrir útgefanda til að falla einhliða frá greiðslu vaxta. Í þeim tilvikum sem fjármálagerningar kveða á um greiðslu vaxta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum verði þeir fyrst gjaldfæranlegir þegar skilyrði til greiðslu þeirra eru uppfyllt.

Þá er ég kominn að því ákvæði tekjuskattslaga sem fjallar um takmörkun á frádrætti vaxtagjalda. Í ákvæðinu eru sett tímamörk á heimildir lögaðila til að draga frá skattskyldum tekjum vaxtagjöld og afföll vegna lánaviðskipta við tengda aðila upp að 100 milljónum. Ákvæðið hefur þótt vera óskýrt og hefur í framkvæmd verið litið svo á að ef farið er yfir fjárhæðarmörkin sé heildarfjárhæðin háð takmörkunum samkvæmt meginreglunni. Þannig hefur ekki verið litið svo á að fyrstu 100 milljónirnar af stofni vaxtagjalda og affalla séu undanþegnar takmörkun vaxtagjalda heldur einungis ef vaxtagjöld eru lægri en 100 millj. kr. og getur það leitt til mikilla jaðaráhrifa. Því er lögð til sú breyting að frádráttur vaxtagjalda og affalla takmarkist við það sem er umfram 100 millj. kr. en með því ætti að vera komið í veg fyrir jaðaráhrifin.

Næst vil ég koma inn á að lögð er til breyting á álagningardegi og kærufresti lögaðila í þá veru að álagning lögaðila verði færð aftur í sama horf og birt um mánaðamótin október/nóvember í stað september/október eins og nú er. Skattskyldum lögaðilum á grunnskrá fjölgar stöðugt á milli ára og eykst umfangið bæði hjá fagaðilum og ríkisskattstjóra ár frá ári. Aðalforsendan fyrir því að álagningu á lögaðila var flýtt á árinu 2018 var sú að fá fyrr fram þær fjárhagslegu stærðir sem nýta þarf við fjárlagagerð. Fyrir liggur að nú þegar er stór hluti skattstofna lögaðila ljós þegar í júníbyrjun og að 60–70% af heildartekjuskattsstofni lögaðila séu þegar komin fram í byrjun ágúst.

Samhliða þessari breytingartillögu er annars vegar lagt til að kærufrestur lögaðila verði einn mánuður í stað þriggja mánaða eins og nú er. Þó er ávallt unnt að óska eftir breytingum með innsendu erindi til ríkisskattstjóra berist kæra ekki innan kærufrests af einhverjum orsökum. Hins vegar er lagt til að sá tími sem ríkisskattstjóri hefur til að afgreiða kærur, í tilviki bæði einstaklinga og lögaðila, verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá mánuði. Mikill meiri hluti kæra yrði eftir sem áður afgreiddur á fyrstu tveimur mánuðum tímafrestsins en með því að lengja kæruafgreiðslutímann gefst meiri tími til vandaðra vinnubragða í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Þá er komið að tímamörkum endurákvörðunar. Í frumvarpinu er lagt til að við tekjuskattslög verði bætt ákvæði þess efnis að heimild til endurákvörðunar skatts maka skattaðila eða skatts einstaklings, sem hefur verið í óvígðri sambúð með skattaðila og verið skattlagður með honum sem hjón væru, sem leiðir af niðurstöðum rannsóknar sem skattaðilinn sætir, reiknist einnig frá byrjun þess árs er rannsókn hófst á skattskilum skattaðilans. Skattrannsóknir hefjast oft ekki fyrr en ár hafa liðið frá þeim skattskilum er þær varða og reynast gjarna tímafrekar. Væri því ókleift að koma við endurákvörðun á grundvelli þeirra ef ekki nyti við aukins frests samkvæmt tekjuskattslögum, m.a. í tilvikum þar sem um samsköttun hefur verið að ræða. Tilefni þessarar tillögu er úrskurður yfirskattanefndar nr. 22/2019, en fyrir úrskurðinn var í skattframkvæmd miðað við það að tímafrestur samkvæmt tekjuskattslögum ætti einnig við um afleiddar breytingar á skattskilum maka eða sambúðaraðila á grundvelli lagareglna um skattlagningu hjóna og sambúðarfólks. Hvorki er ákjósanlegt né sanngjarnt að samsköttun sé rofin með slíku móti til ávinnings fyrir maka eða sambúðaraðila. Jafnframt skapast óvissa um hvernig beri að fara með endurákvörðun fjármagnstekna þar sem telja ber slíkar tekjur til tekna hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur.

Þá vík ég að ráðstöfun persónuafsláttar. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda með það að markmiði að stöðva frekari nýtingu persónuafsláttar og eftir atvikum bakfæra það sem umfram heimilli nýtingu nemur og áætla skilaskylda staðgreiðslu. Tilefni breytingartillögunnar er það að nokkur brögð hafa verið að því að persónuafsláttur sé ofnýttur á staðgreiðsluári og getur það skapað töluverð óþægindi fyrir viðkomandi einstakling á álagningarári.

Skylda rekstraraðila til þess að leggja fram með skattframtali sínu ársreikning ásamt sundurliðunum og skýringum er næst hjá mér. Hér er um það að ræða að þetta efnisatriði fjallar um skyldu rekstraraðila til að leggja fram með skattframtali sínu ársreikning ásamt sundurliðunum og skýringum. Samkvæmt ársreikningalögum er ekki gert ráð fyrir því að sundurliðanir séu hluti ársreiknings og því felst ákveðin þversögn í því að krefjast sundurliðana samkvæmt lögum um ársreikninga í tekjuskattslögum. Þar sem sundurliðanir geyma að öllu jöfnu grunnupplýsingar til skilnings á ársreikningi og síðar færslum í skattframtali þykir hins vegar nauðsynlegt að ákvæðið standi áfram en þó án tilvísunar til ákvæða laga um bókhald og laga um ársreikninga.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum tekjuskattslaga í kjölfar endurskoðunar á XIII. kafla laganna í tengslum við nýtt frumvarp til laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda sem jafnframt er lagt fram á þessu löggjafarþingi. Lagt er til að ef eindaga ber upp á helgidag eða almennan frídag færist eindagi á næsta virkan dag á eftir. Einnig er lagt til að felld verði brott eldri ákvæði í lögunum sem fjalla um ábyrgð á skattgreiðslum erlendra aðila en um þá ábyrgð er fjallað í nýrri ákvæðum laganna. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðinu með það að markmiði að skýra ábyrgð þriðja aðila sem ber ábyrgð á skattgreiðslum. Jafnframt er lagt til að við ákvæðið verði bætt málsgrein um að þeir sem ábyrgð bera á skattgreiðslum beri einnig ábyrgð á greiðslu dráttarvaxta, kostnaðar og álags sem lagt er á aðalskuldara samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að við lög um tekjuskatt bætist nýr málsliður sem veitir ríkisskattstjóra skýra heimild til að innheimta með aðfararbeiðni ofgreiddar barnabætur sem eru til innheimtu hér á landi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Skilyrði er að íslenska ríkið hafi að þjóðarétti og með lögum skuldbundið sig til að viðurkenna samninginn og tekur ákvæðið mið af lögum um aðför.

Hér eru síðan lagðar til breytingar í frumvarpinu á lögum um virðisaukaskatt sem miða að því að styrkja framkvæmd ákvæðanna. Þannig er lagt til að fellt verði niður ákvæði í lögunum þess efnis að ríkisskattstjóri geti veitt undanþágu til eins árs í senn frá rafrænum skilum á virðisaukaskattsskýrslu. Breytingin útilokar ekki með öllu skil á skýrslum í pappírsformi en tilgangurinn er að auka rafræn skil enn frekar. Þá er lögð til breyting á ákvæði laganna sem kveður á um að ríkisskattstjóri skuli rannsaka virðisaukaskattsskýrslur og leiðrétta ef þær eru ekki í samræmi við lög. Með hliðsjón af eftirlitshlutverki ríkisskattstjóra og verkaskiptingu ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra er talið rétt að breyta þessum ákvæðum. Jafnframt er gerð tillaga um að aflétt verði þeirri skyldu sem hvílir á ríkisskattstjóra um að einskorða eftirlit við þær skýrslur þar sem innskattur er talinn hærri en útskattur. Með því móti hefur embættið aukið svigrúm til þess að meta sjálfstætt hvort skýrslur þarfnist frekari skoðunar. Loks er lagt til að frestur ríkisskattstjóra til að afgreiða skýrslur þar sem innskattur er talinn hærri en útskattur verði lengdur úr 21 degi í 30 daga, einkum til þess að embættinu gefist aukið svigrúm til þess að ljúka innan tímamarka skoðun skýrslna þar sem mál eru flókin og viðamikil.

Næst kem ég inn á frádráttarheimild erlendra sérfræðinga. Lögð er til breyting á ákvæði tekjuskattslaga sem fjallar um frádráttarheimild erlendra sérfræðinga frá tekjum sínum fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf. Heimildin er bundin nokkrum skilyrðum og þeirra á meðal er það skilyrði að hinn erlendi sérfræðingur hafi ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi í fimm ár næst á undan því almanaksári er hann hóf störf hér á landi. Í framkvæmd hefur skilyrðið leitt til ákveðinnar mismununar eftir því hvenær á árinu erlendi sérfræðingurinn hefur störf og sækir um frádráttinn. Því er lagt til að orðalaginu verði breytt á þann veg að miðað verði við að hinn erlendi sérfræðingur hafi ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á næsta 60 mánaða samfelldu tímabili fyrir upphaf starfa hans hér á landi ef frá er talin búseta eða heimilisfesti á síðustu þremur mánuðum þess tímabils.

Næst kem ég inn á að í frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs varðandi innheimtu gjalda fyrir veitingu atvinnuréttinda og tengdra réttinda. Fyrri breytingin lýtur að því að bætt er við starfsheitinu heilbrigðisgagnafræðingur og verður útgáfa á leyfum og skírteinum vegna starfsheitisins þar með gjaldskyld, samanber reglugerð nr. 640/2019 þar sem kveðið er á um menntun, réttindi og skyldur heilbrigðisgagnafræðinga. Með reglugerðinni er nafni Félags íslenskra læknaritara breytt í Félag heilbrigðisgagnafræðinga og starfsheiti læknaritara breytt í heilbrigðisgagnafræðinga. [Hlátur í þingsal.] Þetta vekur nokkra kátínu í hliðarsal en svona er þetta.

Seinni breytingin lýtur að því að við lögin bætist nýr töluliður sem felur í sér að útgáfa á leyfum og skírteinum til heyrnarfræðinga verður gjaldskyld, samanber reglugerð nr. 630/2019 þar sem kveðið er á um menntun, réttindi og skyldur heyrnarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Reglugerðin felur í sér löggildingu stéttarinnar og hefur sá einn rétt til að kalla sig heyrnarfræðing og starfa sem slíkur hér landi sem hefur fengið til þess leyfi landlæknis.

Að lokum er í frumvarpinu að finna nauðsynlegar tillögur að lagabreytingum til leiðréttingar á nokkrum ákvæðum laga um tekjuskatt og fela þær ekki í sér efnisbreytingar.

Eins og ég vék að í upphafi máls míns eru tillögur frumvarpsins af ýmsum toga og hið sama má segja um mat á áhrifum þeirra. Ekki er gott að áætla hver áhrif breytingartillögu um frádráttarbærni vaxtagjalda vegna blandaðra fjármálagerninga verði á tekjur ríkissjóðs. Þó má gera ráð fyrir því að einhver fyrirtæki nýti sér þennan valmöguleika og að ríkissjóður gæti árlega orðið af u.þ.b. 300 milljónum eða allt að 1 milljarði ef algengt verður að þetta úrræði verð nýtt.

Breytingartillaga vegna takmörkunar á frádrætti vaxtagjalda hefur neikvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs en áhrif á afkomu eru ekki talin veruleg. Breytingartillaga sem felur í sér undanþágu aðila, sem bera takmarkaða skattskyldu á Íslandi, frá staðgreiðslu af söluhagnaði af íslenskum hlutabréfum og stofnbréfum gæti leitt til allt að 60 millj. kr. neikvæðra áhrifa á ríkissjóð í staðgreiðslu en gert er ráð fyrir því að samsvarandi fjárhæð skili sér við álagningu opinberra gjalda. Ekki er gert ráð fyrir því að aðrar lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu muni hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.