150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

lýsing verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði.

451. mál
[02:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði. Frumvarpið er á þskj. 627 og mál nr. 451. Markmið lagasetningarinnar er að tryggja fjárfestavernd og skilvirkni markaða samhliða því að efla fjármagnsmarkað innan Evrópska efnahagssvæðisins með því að greiða aðgengi fyrirtækja að fjármögnun, þá sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Frumvarpið var unnið í fjármálaráðuneytinu með aðstoð frá Fjármálaeftirlitinu og felur í sér að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2017/1129, með þeim aðlögunum sem samið var um vegna upptöku gerðarinnar í EES-samninginn, er veitt lagagildi hér á landi. Í reglugerðinni er fjallað um lýsingu sem birta skal þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði verðbréfa eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði og um niðurfellingu á tilskipun 2003/71/EB.

Lýsing er samheiti yfir skjal eða skjöl sem gefa þarf út vegna almenns útboðs verðbréfa eða töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum markaði.

Meginefni frumvarpsins er lögfesting reglugerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um það hvernig eftirlit með ákvæðum frumvarpsins fer fram, um heimildir eftirlitsaðila til upplýsingaöflunar, aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins, viðurlagaákvæði, kæru til lögreglu, vernd starfsmanns vegna tilkynningar um brot í starfsemi og heimild ráðherra til að setja reglugerðir og Seðlabanka Íslands til að setja reglur.

Í dag gilda tiltekin ákvæði verðbréfaviðskiptalaga, nr. 108/2007, um almennt útboð verðbréfa og töku bréfa til viðskipta á skipulegum markaði. Í frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um lýsingu verðbréfa og að viðeigandi ákvæði verðbréfaviðskiptalaga falli brott. Meginbreytingar með lýsingarreglugerðinni frá gildandi rétti má draga saman með eftirfarandi hætti:

Í fyrsta lagi gildir reglugerðin ekki um útboð verðbréfa ef samtals jafnvirði þess í íslenskum krónum er minna en 1 milljón evrur, en í eldri gerð var miðað við 100.000 evrur. Þá er aðildarríkjum gefinn kostur á að undanskilja útboð á verðbréfum undir allt að jafnvirði 8 milljóna evra frá skyldu til birtingar lýsingar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sú heimild verði nýtt til fulls, en í gildandi lögum eru viðmiðunarmörkin 5 milljónir evra í íslenskum krónum. Útboð verðbréfa að verðmæti á bilinu 1 milljón til 8 milljónir evra í íslenskum krónum verða tilkynningarskyld til Fjármálaeftirlitsins.

Í öðru lagi er í reglugerðinni kveðið á um nýja og einfaldari tegund lýsingar, svonefnda ESB-vaxtarlýsingu, sem ætlað er að minnka kröfur um upplýsingagjöf í lýsingum vegna smárra útgáfa óskráðra fyrirtækja eða útboðs lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem skráð eru á vaxtarmarkað.

Í þriðja lagi er fyrirkomulag vegna síðari útgáfu verðbréfa einfaldað og ferli fyrir tíða útgefendur stytt. Þá mun Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin birta á vef sínum og veita endurgjaldslaust aðgengi að öllum lýsingum sem staðfestar eru af lögbærum yfirvöldum innan EES-svæðisins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið hafi umsjón með staðfestingu lýsinga og eftirlit með framkvæmd laganna. Fjármálaeftirlitið mun hafa hefðbundnar eftirlitsheimildir, svo sem að krefjast frekari upplýsinga frá útgefendum og stöðva tímabundið eða banna almennt útboð verðbréfa eða töku til viðskipta á skipulegum markaði sé rökstuddur grunur um brot gegn ákvæðum laganna, auk þess sem Fjármálaeftirlitinu verður heimilað að beita viðurlögum gegn hverjum þeim sem brýtur gegn tilteknum ákvæðum reglugerðarinnar. Þá er í frumvarpinu kveðið á um upplýsingagjöf til evrópskra eftirlitsstofnana og stofnana innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA hér á landi og málskot til EFTA-dómstólsins.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu munu hafa áhrif á útgefendur verðbréfa og leiða til þess að færri aðilar þurfa að semja lýsingar. Breytingarnar munu gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum og tíðum útgefendum verðbréfa auðveldara að sækja fjármagn innan EES-svæðisins. Hvorki er gert ráð fyrir verulegum áhrifum á stjórnsýslu né að útgjöld ríkisins aukist vegna laganna. Því er hægt að segja að það sé mikilvægt að þetta frumvarp nái fram að ganga til að styrkja fjármálamarkaði hér á landi, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, og ekki má gera lítið úr því að hér er verið að standa við samningsskuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.