150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2018.

431. mál
[10:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Þetta er stutt frumvarp utan um ríkisreikninginn. Það er einhver aðskilnaður á því hvað hægt er að gera með því að samþykkja það og nefndarálit sem tengist því annars vegar og hægt að fjalla um ríkisreikninginn hins vegar. Fjárlaganefnd er með skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2018 sem var stuttlega fjallað um í tengslum við þetta frumvarp en samt var ákveðið að moka þessu frumvarpi í gegnum þingið á örskotsstundu með engu umsagnarferli eða neinu því um líku. Kannski er hægt að rökstyðja á einhvern hátt að þess þurfi ekki og að fjallað verði um ríkisreikninginn í einhvers konar nefndarlegri meðferð í kjölfarið. Ég hef ekki hugmynd um hvernig nefndarálit er hægt að gefa út varðandi þá meðferð en það verður áhugavert að sjá það.

Lykilatriðið í þessu er að ekkert er að fara að breytast í meðhöndlun þingsins á ríkisreikningi, hann stendur eins og hann er, en athugun okkar á því verkferli og þeim atriðum sem út af standa, t.d. varðandi lög um opinber fjármál, ætti tvímælalaust að fylgja þessu máli og afgreiðslu á ríkisreikningi fyrir árið 2018. Það er ekki gert heldur bara skóflað í gegn og við reddum hinu síðan einhvern tímann seinna.

Ég geri athugasemd við þessa málsmeðferð. Að sjálfsögðu ættum við að skoða öll þau mál sem tengjast ríkisreikningi 2018 og tengjast endurskoðun á skýrslu Ríkisendurskoðunar. Við ættum að geta skilað nefndaráliti um þá umfjöllun nefndarinnar með þessu frumvarpi en ekki bara að skófla því í gegn og skoða það kannski einhvern tímann seinna og undir einhverjum öðrum kringumstæðum. Það er engin ástæða fyrir því að afgreiða það núna frekar en seinna, það breytir engu um niðurstöðu málsins sem slíka heldur gefur okkur sem þingmönnum tækifæri til að ígrunda málið betur og veita betri upplýsingar í næstu ítrun á ríkisreikningi, á þeirri framsetningu sem t.d. ríkisendurskoðandi gagnrýndi ráðuneytin fyrir fyrir hönd þingsins. Hann sagði að það mætti setja fram ýmsar upplýsingar á skýrari og skilmerkilegri hátt. Þó er pínulítið undarlegt að þingið hafi ekki verið spurt hvað því þætti vera skýrara og skilmerkilegra í ríkisreikningi. Það er mjög margt sem þarf að huga að varðandi skil á ríkisreikningi til framtíðar.

Ég tel að það að þingið afgreiði þennan hluta vinnunnar á þennan hátt sé algjör óþarfi og því sit ég hjá við afgreiðslu ríkisreiknings þetta árið.