150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[11:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp sem ég lagði fram ásamt félögum mínum í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins er lýtur að lítils háttar breytingum um stuðning við kvikmyndagerð þannig að kostnaður geti líka fallið til á Grænlandi og í Færeyjum eins og lögin gera ráð fyrir að hluti kostnaðar, þ.e. 20%, geti fallið til utan Íslands en þá innan EES-svæðisins.

Hv. þm. Guðjón S. Brjánsson fór ágætlega yfir það hér í gær hversu miklu máli skiptir samstarf við okkar góðu granna í Færeyjum og á Grænlandi. Það er vissulega ákjósanlegt og vonandi að þetta verði til að styrkja enn betur þau menningartengsl sem eru á milli þessara landa en þá vil ég segja að ég held að þetta sé ekki síður tækifæri fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað í því að þróa starfsemi sína enn frekar. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, að þessi iðnaður er mjög mikilvægur. Það er mikilvægt að horfa til þess að við styðjum hér skapandi greinar og hugvitsdrifna starfsemi. Þó að við séum rík af náttúruauðlindum getum við ekki til langrar framtíðar treyst eingöngu á virkjun náttúrunnar og nýtingu náttúruauðlinda heldur þurfum við að horfa til þess að nýta hugvitið.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kom aðeins inn á þær breytingar sem verið er að ræða á þessum vettvangi. Við þekkjum það að Ríkisendurskoðun hefur gefið út skýrslu og starfshópur hefur verið að störfum. Ég er sannfærð um að það eru mjög mikil hagræn áhrif af kvikmyndagerð. Mér varð hugsað til þess þegar hv. þingmaður talaði áðan að á 145. löggjafarþingi var lögð fram beiðni af hæstv. núverandi utanríkisráðherra, þá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, og fleiri þingmönnum um að iðnaðar- og viðskiptaráðherra flytti Alþingi skýrslu um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi með sérstakri áherslu á svæðisbundin áhrif. Væri kannski skynsamlegt hjá okkur hv. þingmanni að leggja hreinlega fram aðra skýrslubeiðni? Ég hygg að á þessum árum hafi umtalsvert mikið gerst. Ég held að við sjáum hvað þessi atvinnugrein hefur vaxið gríðarlega og hvað hún hefur fjölþætt áhrif. Í þessari ágætu skýrslu var horft sérstaklega til svæðisbundnu áhrifanna og þess hvað ákveðin svæði hefðu fengið út úr því að fá til sín kvikmyndatökur og annað. Við sjáum að þau eru augljós, við sjáum bara á fréttum þegar verið er að ræða við fólk í smærri byggðasamlögum þegar eiginlega heilt þorp mætir og býr þar um stund. Það hefur mikil áhrif en ekki síður hefur þetta haft áhrif á ferðaþjónustuna okkar. Ég tel líka að skatttekjur okkar, beinar og óbeinar, af þessari atvinnugrein séu miklar þannig að ég held að það sé full ástæða til að við höldum vel utan um þessa atvinnugrein og ég vona að þetta frumvarp, þó að það láti lítið yfir sér, sé jákvætt innlegg í þá vinnu.