150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um matvæli.

318. mál
[11:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði matvæla, um Matvælasjóðinn sem frumvarpið hefur kallast í þinginu. Hér er um að ræða tæknilega breytingartillögu sem kom fram þegar í ljós kom að lögin gátu ekki tekið gildi á þeim tíma sem ætlað var. Síðan eru örfáar orðalagsbreytingar sem ég ætla að lesa upp til öryggis:

„1. Við 17. gr.

a. Í stað orðsins „Matvælastofnunar“ í 1. málslið 1. efnismgr. komi: opinbers eftirlitsaðila.

b. Í stað orðsins „Matvælastofnun“ í 2. málslið 1. efnismgr. og í 3. efnismgr. komi: Opinber eftirlitsaðili.

c. Í stað orðanna „ef stofnunin telur þörf á“ í 2. málslið 1. efnismgr. komi: ef þörf er talin á.

2. 40. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast gildi 21. desember 2019. Frá sama tíma falla úr gildi lög um sjávarafurðir, nr. 55/1998, og lög um slátrun og sláturafurðir, nr. 96/1997.“

Þetta eru sem sagt breytingarnar sem er nauðsynlegt að gera af tæknilegum ástæðum. Að öðru leyti lýsi ég ánægju minni með þessa lagasetningu. Málið fékk gott svigrúm í atvinnuveganefnd og gerðar voru breytingar á því. Á lokasprettinum var ákveðið að fresta því að stofna þennan Matvælasjóð sem átti að gerast með því að Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóður rynnu saman í eina sæng. Í nefndinni komu fram áhyggjur af því sem nefndin varð við með því að ákveða að bíða með sameininguna að sinni.

Að öðru leyti er margt mjög gott í þessu frumvarpi sem við höfum verið að samþykkja, þ.e. einföldun regluverks og áhættumiðað eftirlit. Í nefndinni og nefndaráliti nefndarinnar kom fram mikill áhugi á því að efla heimaslátrun og tengja hana ferðamennsku. Ferðaþjónustan kallaði mjög eftir því, eins og einnig kom fram hjá þeim bændum sem fyrir nefndina komu. Ég vildi bara koma þessari breytingartillögu á framfæri og hún er hér með komin, takk fyrir.