150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Síðustu sjö ár hefur verið rætt um lengingu fæðingarorlofs upp í tólf mánuði þannig að skiptingin verði fimm, fimm, tveir. Mig langar þess vegna að spyrja þingmanninn hvaðan þessi fjórir, fjórir, fjórir tala kemur vegna þess að ekki kemur hún úr samþykkt Alþingis 2012. Ekki kemur hún úr nefnd sem skilaði skýrslu 2016. Ekki birtist hún í samráðsgáttinni á vegum ráðherra núna í haust. Ekki er hún í frumvarpi ráðherra frá því í haust og ekki er hún heldur í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál sem þingmaðurinn samþykkti með atkvæði sínu hér í gær, alveg eins og ég. Þar er talað um fimm, fimm, tvo sem þá skiptingu sem skuli stefnt að. Ég skil alveg að meiri hluti nefndarinnar vilji halda inni einhverjum ramma í þessu bráðabirgðaákvæði. En af hverju þá ekki að standa með þeim ramma sem í umræðu hefur verið síðustu sjö ár, þeim ramma sem ráðherra þingmannsins lagði fram? Af hverju er verið að finna upp einhver ný viðmið á þingskjali sem var lagt fram seint í gærkvöldi? Hvaða samráð hefur átt sér stað við hagsmunaaðila? Hvaða umræða hefur átt sér stað í samfélaginu eða í þingsal? Hvaðan kemur þetta?