150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það hafa farið fram og fóru fram í hv. velferðarnefnd töluverðar umræður um það hver skiptingin ætti að vera. Þingmenn skiptust nokkuð í tvo hópa með það hversu langt þeir vildu ganga. Ég ætla ekki að fara að tjá mig hér um afstöðu einstakra þingmanna þar til þess enda ekki efni til þess. En hins vegar, bæði í umsögnum utan frá og í svörum gesta, komu fram vangaveltur um að það ætti kannski að skilja skilgreininguna eftir á þessum tímapunkti vegna þess að heildarendurskoðunin væri í gangi. Þingmanninum til upplýsingar heyrðust vangaveltur innan nefndarinnar allt frá núll, tólf svokölluðum og yfir í sex, sex sem er þá full skilgreining á öllum mánuðum versus engin skilgreining á neinum mánuði. Þess vegna er valin þessi leið, hv. þingmaður.