150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir andsvarið. Skoðanamunurinn sem þingmaðurinn vísar til er ekki eingöngu innan hv. velferðarnefndar, ef það er það sem þingmaðurinn er að fiska eftir, hann er líka úti í samfélaginu. Það er rétt að þingið gaf býsna skýr skilaboð í gær með jafnréttisáætluninni um hvernig því þætti ásættanlegast að hafa skiptinguna, þ.e. fimm, fimm, tveir. Það er rétt hjá þingmanninum að þegar hefur ítrekað verið rætt um þá skiptingu úti í samfélaginu. Engu að síður eru hagsmunahópar úti í samfélaginu og a.m.k. einhverjar raddir hér innan þings sem velta þeim möguleika upp hvort skiptingin þurfi að vera með þessum hætti eða hvort gefa eigi hana algjörlega frjálsa. Því ítreka ég það sem ég sagði áðan, að með þessari lendingu er endurskoðunarnefndinni gefið aðeins frírra spil en ella. Hins vegar geri ég ráð fyrir að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) muni með einhverjum hætti í þessari umræðu fá tækifæri til að tjá sig um málið, kjósi hann svo, enda er hann hér á staðnum.