150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að það kom mér dálítið á óvart þegar ég sá breytingartillögu meiri hluta velferðarnefndar seint í gær og rak augun í það að hún treystir sér ekki til að lögfesta tólf mánaða fæðingarorlof nema í bráðabirgðaákvæði. Talandi um að það sé góður bragur á lagasetningu eða ekki, þá þykir mér ekki góður bragur á því að lengingu fæðingarorlofs, þess grundvallarréttar á vinnumarkaði, sé skóflað í bráðabirgðaákvæði sem blekið er varla einu sinni þornað á því að við eigum að fara að greiða atkvæði um það. Sú lenging sem meiri hluti nefndarinnar leggur til ýtir ekki til hliðar þeim ágreiningi sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson segir að ríki um skiptinguna á milli foreldra. Hún ýtir ekkert þeim ágreiningi til hliðar eða frestar honum til haustsins til að ráðherra geti lagt fram frumvarp þess efnis. Nei. Meiri hluti velferðarnefndar er að taka afstöðu til þess að skiptingin eigi að vera fjórir mánuðir á hvort foreldri og fjórir til skiptanna vegna þess að það stendur svart á hvítu í breytingartillögunni. Það er ekkert hægt að hlaupa undan því.

Hér er lagt til að skipting fæðingarorlofs verði fjórir mánuðir á hvort foreldri og fjórir til skiptanna, þvert á allt sem hefur verið rætt síðustu sjö ár í þessu máli, þvert á það sem við samþykktum í gær í þessum þingsal þegar framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum var samþykkt með 61 samhljóða atkvæði. Þar stendur, með leyfi forseta, hafi fólk gleymt því:

„Hvort foreldri um sig eigi rétt á fimm mánaða fæðingarorlofi og foreldrar eigi að auki sameiginlega rétt á tveimur mánuðum til viðbótar sem þeir geta skipt með sér að vild.“

Tveimur tímum síðar hafði meiri hluti velferðarnefndar skipt um skoðun. Hvernig stendur á því? Er einhver innvortis ágreiningur? Er það málið? Á fólk erfitt með að muna lengur en hálfan dag hvað það ákvað í þessum sal?

Hér hefur verið talað um að sama hvaða lending hefði verið valin varðandi skiptinguna yrði alltaf stigið á einhverjar tær. Gott og vel. Hvaða tær er stigið á með því að leggja til skiptinguna fjóra, fjóra, fjóra eins og meiri hluti velferðarnefndar gerir? Það er stigið á tær Kvenréttindafélags Íslands. Það er stigið á tær Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna. Umsagnir allra þessara aðila eru á eina leið, frá fimm, fimm, tveir í átt að sex, sex. Skipta þær ekki einhverju máli? Aðilar vinnumarkaðarins, aðilar að lífskjarasamningunum sem þetta frumvarp byggir á. Kvenréttindafélag Íslands sem tjáir sig hér um eitt öflugasta jafnréttistæki vinnumarkaðarins, segir í umsögn sinni: Ekki gera þetta, sem meiri hluti velferðarnefndar er að leggja til. Hvaða tær skiptu meira máli en þessar?

Önnur upprifjun frá sl. föstudegi, með leyfi forseta:

„Ég held að menn eigi ekki að missa sjónar á því hversu gríðarlega mikilvægt jafnréttistæki þetta fyrirkomulag er gagnvart vinnumarkaðnum um leið og það er auðvitað mikilvægt réttlætismál, mikilvægt félagslegt mál, að þetta sé með þeim hætti að fæðingarorlofsréttinum sé deilt á milli foreldra og að hann sé ekki framseljanlegur nema þá í litlum mæli. Það má ekki vera nema í litlum mæli þegar allt er með felldu og báðir foreldrarnir til staðar vegna þess að þá byrjar bitið í tækinu að minnka …“

Þessi orð féllu hér í pontu á föstudaginn í umræðu um þetta mál. Þar mælti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og ég verð að viðurkenna að ég er hjartanlega sammála honum.

Eins og nefnt hefur verið er reyndin sú að feður taka sama og ekkert af sameiginlega réttinum. Með því að stækka sameiginlega réttinn megum við vel búast við því að sú staðreynd haldi áfram að vera fyrir hendi. Þar með erum við að auka á kynjaskekkjuna á vinnumarkaði. En það skiptir í rauninni ekki máli á þessum tímapunkti vegna þess að það á ekki að vera hlutverk okkar hér í dag að ákveða endanlega skiptingu á tólf mánaða fæðingarorlofi þegar er lagt til að ráðherra komi með frumvarp þess efnis næsta haust.

Þess vegna hef ég lagt fram ofureinfalda breytingartillögu við meirihlutaálit velferðarnefndar sem felst í því að fella út einn málslið, þann aftasta, úr álitinu þannig að ráðherra verði að koma með frumvarp, þannig að það verði ekki ákveðið núna heldur eftir ár hvernig endanlegri skiptingu tólf mánaðanna sé háttað. Það er fullkomlega ótækt, það felur ekki í sér nokkra einustu ígrundun og það eru ekki vönduð vinnubrögð að snúa af braut sem hefur verið vörðuð í sjö ár varðandi það hvernig skipta eigi tólf mánaða fæðingarorlofi milli foreldra og finna upp einhverja nýja skiptingu og festa í lög, festa í bráðabirgðaákvæði eins og meiri hluti velferðarnefndar leggur til.

Nei, virðulegur forseti, það gengur ekki. Ef hv. þingmönnum er alvara með það að ætla að skilja skilgreininguna á skiptingu fæðingarorlofs eftir til haustsins þannig að ráðherra geti lagt frumvarp þess efnis fram, þannig að það sé hægt að taka þá breytingu með þremur umræðum í þingsal og vandaðri málsmeðferð í nefndum, ef þingmönnum er alvara með það, þá styðja þeir einfaldlega breytingartillögu mína og fella brott þessa síðustu setningu meiri hluta velferðarnefndar.

Ef það nær ekki fram að ganga og ef breytingartillaga meiri hlutans verður samþykkt eins og hún stendur, þá er fólk hér í dag að ákveða að tólf mánuðirnir skuli skiptast fjórir, fjórir, fjórir ef ráðherra skilar ekki inn frumvarpi. Það er ekki hægt að segja þetta neitt öðruvísi. Það er ekki hægt að láta eins og þessari ákvörðun sé frestað því að hér verður hún tekin ef ekki verður breytt.