150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:53]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þar sem hann gerði grein fyrir breytingartillögu sinni. Hér áðan gerði Ólafur Þór Gunnarsson, varaformaður velferðarnefndar, grein fyrir breytingartillögu meiri hlutans. Það sem mig langaði að koma hér og varpa aðeins ljósi á er að í dag er skiptingin þrír, þrír, þrír, þ.e. við erum með níu mánaða fæðingarorlof. Á árinu 2020 bætum við einum mánuði við og þá mun skiptingin verða fjórir, fjórir, tveir. Við erum því að draga úr sameiginlegum rétti foreldra á næsta ári með börnum fæddum á því ári. Þá er skiptingin orðinn fjórir, fjórir, tveir. Aukamánuðurinn bætist á annað foreldrið og sameiginlegi mánuðurinn fer til hins foreldrisins. Ég held að mjög mikilvægt sé að það komi fram í umræðunni vegna þess að hv. þingmaður lét að því liggja að við værum að gera breytingar þar sem við værum að hverfa frá því sem lagt var upp með. Það er bara rangt vegna þess að á árinu 2020 erum við sannarlega að draga úr sameiginlegum rétti beggja foreldra.

Síðan vil ég líka segja að niðurstaða nefndarinnar eftir umfjöllun í henni er greinilega sú að það sé skynsamlegt að setja þetta inn í umræðuna í starfshópi sem nú þegar er í gangi varðandi heildarendurskoðun vegna þess að það eru fjölmörg atriði sem þarf að skoða, eins og t.d. réttur einstæðra foreldra, samspilið við fæðingarstyrkjakerfið o.s.frv. Það er auðvitað þannig að ráðherrann mun koma með frumvarp. Sá sem hér stendur mun koma með frumvarp í október á næsta ári líkt og þetta bráðabirgðaákvæði kveður á um. En ég held að það sé mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að 2020 erum við að fara úr því að það séu þrír sameiginlegir mánuðir yfir í tvo sameiginlega mánuði, þannig að því sé haldið til haga í þessari umræðu. Ráðherrann mun koma með frumvarp í október næstkomandi í tengslum við heildarendurskoðun laganna sem einmitt verða 20 ára á næsta ári.