150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:56]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil koma aftur upp til þess að ítreka að á árinu 2020, vegna þess að þessi lenging á að koma til framkvæmda í þremur áföngum, erum við að tala um að skiptingin verði fjórir, fjórir, tveir. Hún er að fara úr því að vera þrír, þrír, þrír yfir í fjórir, fjórir, tveir. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta komi fram í umræðunni vegna þess að hv. þingmaður gerði ekki grein fyrir því í máli sínu. Ríkisstjórnin er einmitt að stíga það skref að draga úr sameiginlegum rétti foreldra og eyrnamerkja orlofið á árinu 2020. Síðan er það auðvitað svo að við munum koma með frumvarp í október næstkomandi þar sem við tökumst á við ýmsar breytingar sem þarf að gera á fæðingarorlofskerfinu, vegna þess að þetta er 20 ára gömul löggjöf. Ég ítreka þetta hér í umræðunni af því að látið er að því liggja að við séum að stíga skref til baka. Þingmaðurinn talaði um sjö ára stefnu o.s.frv. Í praxís mun það ekki verða raunin á árinu 2020. Mín tilfinning er sú að menn séu að brengla hlutina hér í umræðunni og reyna að koma því inn að ríkisstjórnin sé að stíga skref til baka hvað þetta snertir, en þá vil ég segja að praktíkin á næsta ári samkvæmt frumvarpinu, samkvæmt orðanna hljóðan, mun tryggja að skiptingin verði fjórir, fjórir, tveir. Við drögum úr sameiginlegum rétti um einn mánuð á árinu 2020. Rétt skal vera rétt í umræðunni.