150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér heyrist við hæstv. ráðherra vera að ræða hvor sinn hlutinn. Ég var ekki að ræða þetta milliskref sem verður á næsta ári sem er í frumvarpi ráðherra og í öllum þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram í málinu hið sama; fjórir, fjórir, tveir. Það er gott skref, það er aukning á fæðingarorlofsrétti úr níu mánuðum í tíu. Það sem ég er hins vegar að tala um er endanleg útfærsla á 12 mánuðunum og þar er ég einfaldlega sammála ráðherranum eins og hann leggur hana til í frumvarpinu. Fimm, fimm, tveir væri gríðarstórt og mikilvægt skref í jafnréttisátt. Ég er ekki að láta að því liggja að ríkisstjórnin sé að gera eitt eða neitt. Ég er einmitt að benda á að meiri hluti velferðarnefndar er að leggja til hér að festa í bráðabirgðaákvæði skiptinguna fjóra, fjóra, fjóra sem gengur þvert á allt efnislega og málsmeðferðin stenst enga skoðun. Hér segist ráðherra ætli að koma með frumvarp í haust. Við skulum bara trúa því og taka út þetta ákvæði sem neyðir þingheim hér og nú til að taka afstöðu til endanlegrar skiptingar á 12 mánuðunum á fullkomlega óásættanlegum og ófaglegum grunni. Bíðum frekar heildarendurskoðunarinnar sem ráðherra boðar. Tökum ákvörðun um skiptingu 12 mánaðanna á þeim grunni en ekki hérna með einhverjum handarbakavinnubrögðum á handahlaupum.